Arsenal á eftir miðjumanni Elche - Roma vill fá Zirkzee lánaðan - City gæti blandað sér í baráttuna um Semenyo
banner
   fim 27. nóvember 2025 00:10
Elvar Geir Magnússon
Viktor Bjarki fagnaði að hætti Kane - „Hann steig ekki feilspor“
Viktor Bjarki er kominn með tvö mörk í Meistaradeildinni.
Viktor Bjarki er kominn með tvö mörk í Meistaradeildinni.
Mynd: EPA
Tipsbladet fjallar vel um Viktor.
Tipsbladet fjallar vel um Viktor.
Mynd: Tipsbladet
Hinn 17 ára gamli Viktor Bjarki Daðason skoraði sitt annað Meistaradeildarmark þegar hann skoraði fyrsta mark FC Kaupmannahafnar sem sigraði Kairat frá Kasakstan 3-2.

Tipsbladet fjallar um að Viktor hafi fagnað marki sínu með sama hætti og markahrókurinn Harry Kane er þekktur fyrir.

„Ég gerði þetta bara í augnablikinu. Harry Kane er auðvitað leikmaður sem gefur mér innblástur og ég er meðvitaður um hvernig hann fagnar. Ég var samt ekkert búinn að ákveða þetta fagn," segir Viktor.

Viktor skoraði gegn Borussia Dortmund fyrr á tímabilinu og er nú búinn að slá met Lamine Yamal með því að verða sá yngsti til að skora í fleiri en einum leik í Meistaradeildinni.

„Það er mitt starf að skora mörk og ég er auðvitað ánægður með að hafa skorað í kvöld og ná þessu meti. En mikilvægast af öllu er að hjálpa liðinu," segir Viktor.

Stjórinn hleður hann lofi
Jacob Neestrup, stjóri FC Kaupmannahafnar, fór fögrum orðum um Viktor á fréttamannafundi eftir leikinn.

„Frammistaða hans talar fyrir sig sjálf. Þetta var fullkomið, hann steig ekki feilspor. Hann er farinn að banka á dyrnar eftir meiri spiltíma með frammistöðu sinni á vellinum," segir Neestrup.


Athugasemdir
banner
banner