Joao Pedro í forgangi hjá Liverpool - Man Utd setur verðmiða á Rashford - Real Madrid missir vonina gagnvart Davies
banner
   fim 28. nóvember 2024 09:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Aron Þrándar: Vildi hjálpa íslenska boltanum að komast á hærra stig
'Það væri ótrúlega gaman að komast áfram og skrifa söguna þannig með uppeldisklúbbnum'
'Það væri ótrúlega gaman að komast áfram og skrifa söguna þannig með uppeldisklúbbnum'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leiknum gegn Cercle Brugge á Kópavogsvelli.
Í leiknum gegn Cercle Brugge á Kópavogsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það hefði verið gaman að spila á móti honum'
'Það hefði verið gaman að spila á móti honum'
Mynd: Getty Images
Gat ekki spilað eins mikið og hann vildi í sumar.
Gat ekki spilað eins mikið og hann vildi í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég er bara staðráðinn í að koma sterkur inn í næsta tímabil og enda þessa Evrópukeppni almennilega'
'Ég er bara staðráðinn í að koma sterkur inn í næsta tímabil og enda þessa Evrópukeppni almennilega'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þetta gerir miklu meira fyrir mig heldur en að spila í efstu deildunum í Skandinavíu'
'Þetta gerir miklu meira fyrir mig heldur en að spila í efstu deildunum í Skandinavíu'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr útileiknum gegn Omonoia þar sem Víkingar spiluðu mjög vel framan af en Kýpverjarnir unnu að lokum 4-0 sigur.
Úr útileiknum gegn Omonoia þar sem Víkingar spiluðu mjög vel framan af en Kýpverjarnir unnu að lokum 4-0 sigur.
Mynd: Víkingur R.
Klukkan 17:45 mætir Víkingur liði FC Noah í 4. umferð Sambandsdeildarinnar. Liðin mætast á þjóðarleikvangi Armena í Jerevan.

Aron Elís Þrándarson er lykilmaður í liði Víkings og ræddi hann við Fótbolta.net um leikinn.

„Leikurinn leggst mjög vel í mig, við erum búnir að fara aðeins yfir hvernig þeir spila á vídeófundum og þeir líta bara mjög vel út. Þetta er mikið af mjög góðum leikmönnum, hentaði þeim kannski ekki að spila sinn leik á móti Chelsea, en þegar þeir hafa spilað á móti liðum í svipuðum styrkleikaflokki og þeir á heimavelli þá hafa þeir verið að gera mjög vel. Við erum undirbúnir undir að þeir muni koma brjálaðir út í leikinn og ætli að sýna betri leik en á móti Chelsea. Þetta verður hörkuleikur," segir Aron.

Noah steinlá, 8-0, gegn Chelsea á Stamford Bridge. Er eitthvað sem Víkingar taka úr þeim leik í leik kvöldsins?

„Kannski það að þeir vilja spila boltanum mikið og það er hægt að refsa þeim, eins og Chelsea gerði svo sannarlega. Þeir gætu hafa lært eitthvað af þeim leik og spilað aðeins öðruvísi, ég veit það ekki. Við erum meira að fókusa á að vera með okkar á hreinu."

Þurfa ná að stjórna hraðanum
Hvað þarf Víkingur að gera til að ná í úrslit í Jerevan?

„Í þessum útileikjum í Evrópu þarf að vera með allt þetta taktíska á hreinu. Við spiluðum frábærlega í fyrri hálfleik á móti Omonoia en svo fáum við á okkur mark og gerum svo mistök eftir það. Þá er allt í einu staðan orðin 4-0, þó að leikurinn hafi ekki spilast þannig, þá eru hlutirnir fljótir að gerast í Evrópu. Þetta snýst um að gera ekki mistök sem andstæðingurinn getur refsað fyrir."

„Í þeim útileikjum sem við höfum gert vel í þá höfum við náð að stjórna aðeins tempóinu í leiknum; náð að hægja á þegar þarf að hægja á og keyra upp þegar þarf að keyra upp. Við stefnum á að gera það almennilega á morgun."


Miklu betra lið en fólk gerir sér grein fyrir
Er einhver toppleikmaður í liði Noah sem þarf að leggja frekari áherslu á að stoppa en aðra leikmenn?

„Á vídeóum af þeim þá leit vinstri kantmaðurinn þeirra (Virgile Pinson) mjög vel út. Þetta eru mikið af atvinnumönnum, held að í liðinu séu tveir Armenar og allt eru þetta flottir leikmenn. Þarna eru Pórtugalar og Brassar, alvöru spilarar. Þetta er miklu betra lið en fólk gerir sér grein fyrir, held að þessi leikur gegn Chelsea blindi svolítið."

Hefði verið gaman að mæta Gumma Tóta
Guðmundur Þórarinsson er leikmaður Noah en hann mun ekki spila leikinn í kvöld. Gummi hitti á Víkinga á æfingu liðsins í gær.

„Hann kíkti á æfingu hjá okkur, þeir áttu æfingu á eftir okkur og við spjölluðum aðeins við hann. Hann verður ekki með í leiknum sem er eiginlega synd, það hefði verið gaman að spila á móti honum."

„Við spiluðum eitthvað smá saman í landsliðinu, hann er mjög góður leikmaður, hef ekki séð mikið af honum undanfarið þar sem hann er að spila í deildinni hérna í Armeníu."


Missti af undirbúningstímabilinu
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, sagði í viðtali við Fótbolta.net á þriðjudag að síðustu vikur hefðu verið mjög góðar fyrir Aron. Hann hefði náð að æfa vel og það væri eins og að fá nýjan leikmann inn í hópinn.

„Það hefur vantað upp á hjá mér, líkamlega, í allt sumar í raun og veru. Ég var ekkert með á undirbúningstímabilinu, kom beint inn í tímabilið og fann fljótlega að ég réði ekki alveg við leikjaálagið hafandi ekki tekið neinn þátt í undirbúningstímabilinu. Ég fékk eitthvað í lærið á móti KR og eftir það var þetta bara spurning um að reyna halda sér inni á vellinum. Það gerði það að verkum að maður var ekki að æfa eins mikið og maður vildi og spila eins mikið og maður vildi."

„Núna er ég búinn að ná að æfa samfleytt í góðan tíma og bæta stöðugt ofan á."


Miðað við stöðuna á þér í dag, þá hefðir þú verið til í að hátindur tímabilsins væri á þessum tímapunkti?

„Það má alveg segja það. Það er mjög svekkjandi að tímabilið heima sé búið, en ég er bara staðráðinn í að koma sterkur inn í næsta tímabil og enda þessa Evrópukeppni almennilega."

„Þetta gerir miklu meira fyrir mig"
Aron kom til uppeldisfélagsins síðasta sumar eftir áratug í atvinnumennsku í Noregi og Danmörku. Hann kom heim á besta aldri og sýndi hversu öflugur hann var þegar hann hjálpaði Víkingi að verða Íslands- og bikarmeistari síðasta sumar.

Að spila svona stóra leiki, þýðingarmikla leiki í Evrópu fyrir uppeldisfélagið, hversu mikla þýðingu hefur það fyrir þig?

„Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að ég kom heim. Ef ég á að segja alveg eins og er þá gerir þetta miklu meira fyrir mig heldur en að spila í efstu deildunum í Skandinavíu. Það væri ótrúlega gaman að komast áfram og skrifa söguna þannig með uppeldisklúbbnum. Þetta lítur vel út, en maður má samt ekki vera að gleyma sér. Liðin sem við eigum eftir eru hörkulið og við þurfum að klára þetta almennilega."

Vildi hjálpa til við að koma íslenska boltanum á hærri stall
Víkingur hefur unnið tvo leiki í röð í Sambandsdeildinni; heimaleiki gegn Cercle Brugge og FK Borac.

„Þetta er risastórt fyrir klúbbinn og líka íslenskan fótbolta. Ég setti líka stefnuna á það þegar ég kom heim að hjálpa til við að koma íslenska fótboltanum á aðeins hærra stig. Þegar ég var að fara út þá var búið að vera bras á íslenskum liðum í Evrópu í svolítinn tíma. Núna síðustu ár er þetta á réttri leið, Blikarnir komust í Sambandsdeildina í fyrra og við núna. Það þýðir samt ekkert að slaka á. Við þurfum að ná í fleiri stig fyrir Ísland til þess að liðin okkar fái greiðari leið til að komast aftur langt næstu ár."

Hvatning til að gera enn betur á næsta tímabili
Víkingar upplifðu mikil vonbrigði í lok október þegar liðið tapaði úrslitaleik gegn Breiðabliki um Íslandsmeistaratitilinn. Gáfu þau vonbrigði mönnum auka blóð á tennurnar að vilja gera enn betri hluti í Evrópu?

„Það gæti alveg verið. En ég held það gefi okkur líka bara meira inn í næsta tímabil, að reyna læra af þessu. Við fórum inn í deildarkeppnina í Evrópu og náðum að gera vel í deild og bikar, vantaði bara herslumuninn. Þetta mótiverar okkur bara í að reyna gera ennþá betur á næsta tímabili og við ætlum að vinna þetta þá," segir Aron.
Athugasemdir
banner