Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 29. september 2020 14:40
Ívan Guðjón Baldursson
Gary Neville: Liverpool er skrefi á undan Man City
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Gary Neville telur mikinn mun vera á Englandsmeisturum Liverpool og Manchester City á nýju tímabili. Hann býst við því að annað hvort liðanna hreppi Englandsmeistaratitilinn í ár.

Fyrir upphaf tímabilsins spáði hann Man City titlinum en nú hefur hann skipt um skoðun þar sem hann telur Liverpool vera skrefi á undan.

„Ég er búinn að skipta um skoðun og ég var búinn að því fyrir tapið gegn Leicester. Liverpool hefur virkilega hrifið mig hingað til, meira að segja í fyrsta leiknum gegn Leeds. Það var sturlaður leikur, ég hef tekið þátt í svona leikjum og það segir mikið um karakterinn í liðinu að vinna svona leiki," sagði Neville í hlaðvarpsþætti sínum.

„Ég bjóst við að Man City myndi kaupa meira. Liverpool keypti tvo eftir fyrstu umferð og hefur síðan þá unnið gegn Chelsea og Arsenal. Frammistaða Liverpool í fyrri hálfleiknum gegn Arsenal var framúrskarandi.

„Það sést á leikmönnum liðsins hversu mikið þeir þrá að sigra. Vinnusemin er með ólíkindum, meira að segja þó Jordan Henderson og James Milner spili ekki. Þetta lið er fullt af vinnuhestum. Það tók Naby Keita nokkur ár að komast á sömu blaðsíðu og restin af liðinu en núna er hann flottur. Fabinho fer í gegnum leikinn án þess að svitna og Georginio Wijnaldum sinnir sinni vinnu virkilega vel þó það sé ekki mikið tekið eftir honum.

„Allt liðið, frá markverðinum að Roberto Firmino uppi á topp, er framúrskarandi."


Á sama tíma hefur Man City misst dampinn og tapaði óvænt á heimavelli gegn Leicester City um helgina, 2-5.

„Það er margt sem er að hjá Man City. Það eru margir leikmenn á meiðslalistanum, liðið byrjaði undirbúningstímabilið seinna og því gætu leikmenn ekki verið komnir í almennilegt leikform. Við vitum að Pep Guardiola er ekki með sitt draumalið á vellinum, hann er að leita að nýjum miðverði.

„En þegar ég sé hugarfarið hjá Liverpool á upphafi tímabils og ber saman við hugarfarið hjá Man City þá er Liverpool skrefi á undan. Það er eitthvað sem Pep Guardiola þarf að vinna í. Þetta er lið sem pressaði ótrúlega vel í tvö ár um leið og boltinn tapaðist en þeir hafa misst dampinn. Pressan er ekki jafn góð.

„Pep Guardiola er besti þjálfari í heimi og stýrir frábæru liði en hann þarf að passa sig. City tapaði 8 stigum í fyrstu 8 umferðum síðasta tímabils og náði aldrei að komast yfir Liverpool á toppinum. Þeir geta ekki leyft sér að tapa mikið af stigum aftur, þetta Liverpool lið er alltof gott."

Athugasemdir
banner
banner
banner