Kane, Rashford, Osimhen, Guehi og Alonso eru meðal þeirra sem koma við sögu í slúðrinu
   mið 29. nóvember 2023 20:42
Brynjar Ingi Erluson
Ten Hag vildi ekki skella skuldinni á Onana - „Ég ber ábyrgð á þessu“
Erik ten Hag
Erik ten Hag
Mynd: EPA
André Onana átti hörmungarleik
André Onana átti hörmungarleik
Mynd: EPA
Erik ten Hag, stjóri Manchester United, tekur einn ábyrgð á mistökunum sem liðið gerði í 3-3 jafnteflinu gegn Galatasaray í Meistaradeildinni í kvöld.

United-liðið spilaði góðan fótbolta í leiknum og litu hlutirnir afar vel út eftir fyrstu tuttugu mínúturnar.

Staðan var 2-0 og hefði getað verið 3-0 er Luke Shaw kom sér í fínt færi, en í stað þess glutraði United niður forystunni vegna mistaka André Onana í markinu.

Hann fékk á sig tvö aukaspyrnumörk, sem hann hefði hæglega getað komið í veg fyrir. Í fyrra aukaspyrnumarkinu var hann illa staðsettur og stóð hreyfingarlaus á línunni, en í seinna missti hann boltann í eigið net.

„Við vorum að vinna og svo allt í einu að tapa þessu. Við áttum að taka öll stigin, það er alveg ljóst. Við höfum gert þetta í öðrum leikjum, en ég var ánægður með hvernig við spiluðum en verð á sama tíma að gagnrýna liðið því varnarleikurinn var alls ekki nógu góður. Við vorum að leiða 3-1 og þá eigum við ekki efni á því að gera mistök, því það skilur liðin að.“

„Hvert einasta mark er með sína sögu. Hvort sem það sé augnablik þar sem við erum í umbreytingu og náum ekki að loka á miðsvæðið eða annað markið sem er aukaspyrna og svo þriðja markið þar sem við erum skipulagðir en fjölmennum vinstra megin. Það má ekki gerast. Við verðum að læra af þessu.“

„Ég er mjög ánægður því þú sást leikstíl liðsins. Hann var jákvæður, dýnamík í honum og sýndum hugrekki. Ég var ánægður með frammistöðuna því við sköpuðum okkur svo mörg færi en á sama tíma þurfum við að vinna þennan leik.“


Ten Hag vildi ekki skella skuldinni á Onana. Hann tók á sig alla ábyrgð er hann var spurður hverjum það væri að kenna að United væri alltaf að kasta frá sér leikjum.

„Það er alltaf á mér. Ég ber ábyrgð á þessu. Við vitum að við erum í ákveðnu verkefni og erum að bæta okkur, þannig það veit á gott, en við erum á leið í rétta átt þannig ég veit að við munum verða farsælir þegar horft er til lengri tíma. En ef við ætlum að vera áfram í Meistaradeildinni þá þurfum við að vinna næsta leik,“ sagði Ten Hag í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner