Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   þri 30. júlí 2019 14:21
Fótbolti.net
„Gústi í basli með að finna blönduna"
Viktor Karl fær hrós fyrir frammistöðu sína gegn Breiðabliki.
Viktor Karl fær hrós fyrir frammistöðu sína gegn Breiðabliki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ágúst Gylfason.
Ágúst Gylfason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik er í öðru sæti Pepsi Max-deildarinnar sem er ótrúlegt miðað við að liðið hefur ekki unnið leik síðan 22. júní. Uppskera Kópavogsliðsins hefur verið rýr en það var meðal umræðuefna í Innkastinu sem tekið var upp í gærkvöldi.

„Gústi hefur verið að hringla í liðinu hjá sér, honum gengur illa að finna rétta liðið." sagði Elvar Geir Magnússon í þættinum þegar fjallað var um tapið gegn Víkingi en Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, hefur gert margar breytingar milli leikja.

„Á bekknum var Andri Rafn Yeoman sem menn voru að mála sem besta varnartengilið á Íslandi en hefur verið meira notaður sem framherji en ekki. Kolbeinn Þórðarson var bekkjaður, hann hefur verið að dala, Gísli fékk tækifærið en átti ekki góðan leik. Það er alveg rétt að Gústi er í basli með að finna réttu blönduna," sagði Tómas Þór Þórðarson.

Viktor Karl Einarsson var einn af ljósu punktunum í leik Blika í gær. Hann hefur ekki fengið margar mínútur en fékk hrós fyrir sína frammistöðu í Innkastinu.

„Af hverju var Viktor Karl tekinn af velli? hann var hrikalega flottur og það var eins og það væri 'batl' milli hans og Galdra (Guðmundar Andra Tryggvasonar) hvor yrði maður leiksins. Hann var frábær, frábær sending í aðdraganda fyrra marks Blika og skoraði seinna markið. Hann var greinlega ákveðinn í að nýta tækifærið sem hann fékk þarna," sagði Elvar.

Gunnar Birgisson telur að ástæðan fyrir því að Viktor var tekinn af velli sé sú að hann hafi ekki verið klár í heilan leik.

„Hann hefur ekki spilað 90 mínútna leik í háa herrans tíð," sagði Gunnar sem vill ekki mála skrattann á vegginn þegar kemur að Breiðabliki.

„Það var í lagi með spilamennskuna hjá Blikum í þessum leik og þeir áttu meira skilið en núll stig. Ég hugsa að sigrarnir komi en þeir hafa ekki unnið síðan 22. júní og skiljanlega er það komið í hausinn á mönnum. Mér fannst negatíft hugarfar í leikmönnum," sagði Gunnar.

Smelltu hér til að hlusta á Innkastið


Athugasemdir
banner
banner