Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 30. september 2020 15:30
Magnús Már Einarsson
Best í 15. umferð: Vonandi verður þetta síðasta endurkoman mín
Mist Edvardsdóttir (Valur)
Mist Edvardsdóttir fagnar Íslandsmeistaratitlinum með Val í fyrra.
Mist Edvardsdóttir fagnar Íslandsmeistaratitlinum með Val í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mist Edvardsdóttir, leikmaður Vals, er leikmaður 15. umferðar í Pepsi Max-deild kvenna en hún skoraði fernu í 7-0 útisigri gegn Fylki um helgina. Mist kom inn í byrjunarliðið og stimplaði sig inn af krafti.

„Tilfinningin var hálfskrítin því þessi mörk komu skemmtilega á óvart en fyrst og fremst var ég bara glöð með að hafa spilað 60 mínútur og liðið vel, bæði hvað formið varðar og líka bara í líkamanum eftir leik," sagði Mist við Fótbolta.net í dag.

Mist er að koma til baka eftir að hafa slitið krossband þrívegis á undanförnum árum. Það kom henni mikið á óvart að byrja leikinn.

„Já ég var steinhissa þegar ég frétti að ég ætti að byrja og var alls ekki að búast við því. Ég hafði ekki gert mér neinar vonir eða væntingar um neitt fyrir þetta tímabil og hef meira bara verið að koma inn í þetta hægt og rólega síðan í ágúst og fundið mun á mér með hverri viku. Eftir að Covid frestaði öllu opnaðist gluggi að ná einhverjum leikjum og ég ræddi við Pétur (Pétursson) um að þeir mættu nota mig ef þeir vildu en satt að segja þá átti ég ekki von á því, a.m.k. ekki að byrja leik. "

Mist hefur verið afar óheppin með meiðsli undanfarin ár en þar á undan var hún að glíma við krabbamein sem hún sigraðist á. Hún hefur hins vegar alltaf haldið ótrauð áfram.

„Þetta stop/start eftir meiðsli er farið að venjast óþarflega mikið enda hef ég ekki náð heilu undirbúningstímabili síðan 2014. En tilfinning er góð að vera komin af stað aftur og vonandi verður þetta síðasta endurkoman mín. Auðvitað er alltaf smá hræðsla í manni að lenda í þessu aftur en ef maður ætlar að vera í fótbolta þá verður maður bara að reyna blokka þennan ótta og einbeita sér að þeim hlutum sem maður getur stjórnað."

„Þessi þriðju og síðustu slit voru frekar mikið högg og það tók svolítinn tíma að kyngja þeim í fyrra. Mér fannst erfitt að þurfa sætta mig við að detta út enn einu sinni og sætta mig við það hvernig ferillinn hefur farið síðustu ár. En þetta er bara eins og með flest annað, maður jafnar sig með tímanum og reynir svo frekar að horfa í allt það góða sem fótboltinn hefur gefið frekar en að dvelja við eitthvað sem aldrei varð."

Hin 29 ára gamla Mist segist ekki hafa íhugað að hætta eftir að hún sleit krossband fyrir tímabilið í fyrra.

„Nei, ég ákvað eiginlega bara ekki neitt nema það að fara í aðgerð og koma fætinum í lag aftur og mér fannst auðveldast að gera það með því að mæta á æfingar með liðinu og sinna mínu prógrami. Það hvarflaði aldrei að mér að ákveða að hætta enda fannst mér engin þörf á slíkri ákvörðun. Ég vildi bara leyfa mér að taka minn tíma í að komast á lappir án þess að vera undir pressu frá sjálfri mér að vera farin að spila aftur á ákveðnum tímapunkti og fyrir vikið hefur þetta verið bara algjör bónus að fá einhverjar mínútur."

Á laugardag er risaleikur í Pepsi Max-deildinni en þar mætast Vaur og Breiðablik sem eru að berjast um titilinn.

„Ég er ógeðslega spennt fyrir honum. Það hefur verið geggjuð stemning á leikjum þessara liða síðustu ár og flott mæting og ég á ekki von á öðru en að það muni færri komast að en vilja, í ljósi fjöldatakmarkanna. Það verður gaman að taka á móti Blikum að Hlíðarenda," sagði Mist að lokum.

Domino's gefur verðlaun
Leikmenn umferðarinnar í Pepsi Max-deild karla og kvenna fá verðlaun frá Domino's í sumar.

Sjá einnig:
Best í 1. umferð - Katla María Þórðardóttir (Fylkir)
Best í 2. umferð - Hulda Ósk Jónsdóttir (Þór/KA)
Best í 3. umferð - Hlín Eiríksdóttir (Valur)
Best í 6. umferð - Katrín Ásbjörnsdóttir (KR)
Best í 7. umferð - Sveindís Jane Jónsdóttir (Breiðablik)
Best í 8. umferð - Ólöf Sigríður Kristinsdóttir (Þróttur R.)
Best í 10. umferð - Cecilia Rán Rúnarsdóttir (Fylkir)
Best í 11. umferð - Barbára Sól Gísladóttir (Selfoss)
Best í 12. umferð - Erin McLeod (Stjarnan)
Best í 13. umferð - Phoenetia Browne (FH)
Best í 14. umferð - Hólmfríður Magnúsdóttir (Selfoss)
Athugasemdir
banner
banner
banner