Endurkoma á Trafford? - Liverpool vill Eze - Pogba til Bandaríkjanna - Duran til Madríd?
banner
   mán 30. september 2024 15:58
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Oliver Heiðars æfir á Englandi
Markakóngur og besti leikmaður Lengjudeildarinnar.
Markakóngur og besti leikmaður Lengjudeildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heiðar í baráttunni við Derek Geary á sínum tíma.
Heiðar í baráttunni við Derek Geary á sínum tíma.
Mynd: Getty Images
Sean Dyche.
Sean Dyche.
Mynd: EPA
Oliver Heiðarsson var besti leikmaður Lengjudeildarinnar í sumar. Hann endaði sem markahæsti leikmaður deildarinnar, skoraði fjórtán mörk fyrir toppliðið ÍBV sem verður í Bestu deildinni á næsta tímabili.

Í tilefni þess var hann til viðtals hér á Fótbolta.net. Oliver dvelur þessa dagana á Englandi þar sem hann æfir með Watford.

„Ég er á Englandi, ég er að prófa að æfa með Watford. Pabbi heyrði í þeim og spurði hvort ég mætti koma og sjá hvernig þetta væri. Ég er búinn að æfa með U21 liði Watford síðan á miðvikudaginn. Ég fer svo til Liverpool um helgina og geri eins hjá Everton," segir Oliver.

Pabbi Olivers er Heiðar Helguson sem lék með Watford á árunum 1999-2005 og aftur tímabilið 2009-10, þá á láni frá QPR.

„Ég var ekkert búinn að spá í þessum möguleika. Þessi hugmynd kom upp í síðasta mánuði. Getustigið hér er aðeins hærra en á Íslandi, æfingarnar aðeins hraðari, en enginn svakalegur munur."

„Þetta er í fyrsta skiptið sem ég geri eitthvað svona, þetta er alveg mjög gaman."


Ertu að gera þér vonir um að fá kallið á eina aðalliðsæfingu eða eitthvað svoleiðis?

„Ekkert þannig, en það væri gaman. Ég held það væri erfitt," segir Oliver sem fór á leik Watfod á Sunderland á laugardag og sá Watford vinna 2-1 heimasigur á Vicarage Road. Watford er í 7. sæti Championship-deildarinnar.

Af hverju Everton?
Sean Dyche, stjóri Everton, var tímabilin 2002-2005 samherji Heiðars hjá Watford.

„Pabbi spilaði með honum í Watford og þeir eru ennþá góðir félagar. Pabbi hringdi í hann á sínum tíma þegar hann var aðstoðarþjálfari Kórdrengja og fékk markmann á láni frá honum," segir Oliver.

Sá markmaður heitir Lukas Jensen og er í dag aðalmarkvörður Millwall í Championship deildinni. Lengra viðtal við Oliver verður birt seinna í dag.
Athugasemdir
banner
banner
banner