Manchester liðin og fleiri vilja Semenyo - Arsenal í viðræðum við Saka - Barcelona bíður með ákvörðun um Rashford
   þri 30. september 2025 13:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
„Pabbi og mamma jafnglöð og ég með skiptin hingað yfir"
Kvenaboltinn
Sandra María skipti yfir til Köln fyrir um mánuði síðan.
Sandra María skipti yfir til Köln fyrir um mánuði síðan.
Mynd: Köln
Á æfingu fyrir EM í sumar.
Á æfingu fyrir EM í sumar.
Mynd: KSÍ
Sandra María með dóttur sinni.
Sandra María með dóttur sinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það var erfitt að kveðja Þór/KA.
Það var erfitt að kveðja Þór/KA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sandra María var markadrottning Bestu deildarinnar í fyrra.
Sandra María var markadrottning Bestu deildarinnar í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Er í stóru hlutverki í íslenska landsliðinu.
Er í stóru hlutverki í íslenska landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er alltaf gaman að skora mörk og vinna fótboltaleiki," segir Akureyringurinn Sandra María Jessen sem gekk í raðir þýska úrvalsdeildarfélagsins Köln fyrir um mánuði síðan frá Þór/KA.

Í síðustu viku skoraði Sandra fyrstu tvö mörk sín fyrir Köln í 2-1 sigri gegn Essen á útivelli.

„Þetta var sérstakt þar sem við höfðum beðið lengi eftir sigri. Þetta var rosalega gott fyrir hausinn á okkur og sjálfstraustið að landa þessum sigri, og fyrir mig að koma inn fyrstu mörkunum. Þetta var virkilega gaman."

„Mamma mín var á leiknum, unnustinn minn og dóttir mín og vinir hans. Það voru margir að styðja mig og það var mjög gaman eftir leik. Það gerir þetta alltaf enn sérstakara að fá stelpuna í fangið eftir leik, ótrúlega gaman," segir Sandra sem bætti svo við tveimur mörkum til viðbótar í þýska bikarnum.

Fjölskyldan með tengsl við Köln
Sandra hefur síðustu árin verið lykilmaður hjá Þór/KA, algjör stjarna í því liði. Núna er hún komin aftur til Þýskalands eftir að hafa spilað með Bayer Leverkusen fyrir nokkrum árum síðan. Hún segir meiri gæði í þýsku deildinni núna.

„Maður vissi svona hvað maður var að fara út í. Gæðin eru þó orðin enn meiri og fleiri góð lið," segir Sandra. „Það var rosalega gott að vita hvað ég væri að fara út í. Þessir leikir sem við höfum spilað hingað til hafa sýnt að öll liðin í þessari deild geta gefið hvort öðru alvöru leiki. Mér finnst það mjög jákvætt. Ég tel mig geta tekið næsta skref áfram hér í þessu umhverfi."

Hún frétti af áhuga Köln eftir Evrópumótið þar sem hún var einn af fáum ljósum punktum í liði Íslands.

„Ég var búinn að vera í sambandi við Gylfa umboðsmann fyrir EM og hann sagði að það væri áhugi frá einhverjum félögum en svo eftir Evrópumótið þá kviknaði áhugi frá Köln. Okkur fannst það rosalega heillandi, bæði að fara til Þýskalands og svo er deildin hér mjög góð. Ég er búin að spila hérna áður og þekki þetta. Fjölskylda mín er líka með tengsl við Köln þar sem foreldrar mínir kynnast hérna. Það er nú ástæðan fyrir því þar sem ég er í dag. Það eru skemmtileg fjölskyldutengsl sem gera þetta enn meira aðlaðandi. Svo er Köln stór klúbbur í Þýskalandi og hér eru mjög góðar aðstæður. Það er margt sem heillaði og ekki síst líka þjálfarinn og hennar hugmyndafræði um fótbolta."

Það er alveg öruggt að foreldrar hennar verða duglegir að koma í heimsókn.

„Mamma fer til Þýskalands í háskóla, íþróttaháskólann í Köln. Hún kynnist pabba þar. Það er mjög skemmtilegt fyrir alla fjölskylduna að ég sé hérna. Pabbi og mamma voru jafnglöð og ég með skiptin hingað yfir. Mamma er hjá mér núna. Hún er að bjarga mér á meðan kærastinn fór til Íslands að ganga frá búslóðinni okkar. Svo kemur pabbi líka einhvern tímann. Þau eiga eftir að koma oft hingað, það er alveg öruggt," segir Sandra en fjölskyldan er að koma sér vel fyrir í Þýskalandi.

„Við erum búin að koma okkur fyrir, fundum mjög flotta íbúð. Það erfiðasta hefur verið að fá leikskólapláss fyrir stelpuna mína en hún er núna að byrja um mánaðarmótin. Þá verður rosalega gott að fá smá rútínu í daglega lífið hjá öllum, ekki síst fyrir hana. Við höfum náð að gera allt sem þarf að gera á stuttum tíma."

Mikill áhugi eftir EM
Eins og áður segir þá átti Sandra, sem er þrítug, gott Evrópumót með íslenska landsliðinu og eftir það var áhuginn mikill. Hún ákvað að stökkva á eitt ævintýri í viðbót.

„Það kom alveg slatti af áhuga utan frá eftir EM, það voru nokkrar mismunandi deildir en fyrir minn fótboltaferil og fyrir okkur sem fjölskyldu var þetta besta niðurstaðan. Í rauninni gæti ég ekki verið ánægðari með hver niðurstaðan var," segir Sandra.

„Vill maður taka eitt ævintýri í viðbót? Við ákváðum að ég ætti enn það mikið eftir í fótboltanum að það væri enn í boði og skemmtilegt að taka svona ævintýri. Þegar svona spennandi tilboð kemur er erfitt að segja nei. Hlutirnir voru mjög fljótir að gerast þegar samræður hófust. Ég varð að skoða aðra möguleika líka en þetta var það sem heillaði mest þegar upp var staðið."

Henni líst mjög vel á Köln sem er stórt félag í þýska boltanum.

„Þetta er rosalega stórt félag, ein stór fjölskylda. Ég fann það strax þegar ég mætti á svæðið og skrifaði undir. Allir æðstu menn félagsins voru komnir að heilsa mér og bjóða mig velkomna. Það er rosalega mikið gert úr öllu. Á heimaleikjunum eru hoppukostalar, andlitsmálning og klappstýrur. Þetta er stórt dæmi. Þjóðverjar hafa mikinn áhuga á fótbolta og vilja að þróunin sé góð. Það er kannski ein helsta breytingin frá því ég var hérna síðast; það er enn meiri áhugi og enn meiri gæði. Köln er stórt félag og þau gera þetta alveg rosalega vel," segir Sandra.

Erfið samtöl
Sandra var besti leikmaður Þór/KA og hún segir að það hafi verið erfitt að yfirgefa félagið á miðju tímabili.

„Auðvitað var það mjög erfitt. Samtalið sem ég átti við Jóa og stelpurnar voru ein erfiðustu samtöl sem ég hef átt. Það var vont og erfitt að skilja liðið eftir á miðju tímabili en ég hafði samt trú á því að stelpurnar myndu klára þetta vel. Þau studdu mig öll í að taka næsta skref. Ég vona að ég sé að sýna gott fordæmi fyrir aðra leikmenn í liðinu," segir Sandra.

Það var gott fyrir hana sjá liðið vinna Tindastól og halda sér í Bestu deildinni.

„Undanfarnir dagar hafa verið mjög góðir fyrir mig fótboltalega séð. Fyrst að ná sjálf inn fyrstu tveimur mörkunum og í fyrsta sigurinn á tímabilinu og svo að sjá Þór/KA tryggja sér áframhaldandi sæti í Bestu. Þetta verður ekki mikið betra," sagði landsliðskonan.

Mikið hungur
Það eru spennandi vikur framundan þar sem þýski boltinn er í fullum gangi og svo styttist í næsta landsliðshitting.

„Það eru mjög skemmtilegar vikur framundan. Búið að vera mikið af leikjum á stuttum tíma núna. Maður er í þessu til að spila leiki og á ekki að kvarta út af því. Það eru allir leikir mjög erfiðir hérna og við þurfum að undirbúa okkur vel fyrir þá. Með hverjum deginum nær liðið sterkari tengingu og nær að skila betri frammistöðu á vellinum. Ég er spennt fyrir framhaldinu," segir Sandra.

Næsta landsliðsverkefni er eftir um þrjár vikur þegar Ísland mætir Norður-Írlandi í umspili um sæti í A-deild Þjóðadeildarinnar.

„Það verður gaman að hitta hópinn aftur. Við erum allar staðráðanar í að setja punkt við það sem er búið að gerast. Við ætlum að horfa fram á við. Það er mikið hungur í því að gera vel í næsta verkefni og við erum staðráðnar í að ná í góð úrslit þar sem munu skila okkur áframhaldandi sæti í A-deild," sagði þessi frábæra fótboltakona að lokum.
Athugasemdir
banner