fös 30. nóvember 2012 12:21
Magnús Már Einarsson
Jón Daði: Fer stoltur frá Selfossi
Jón Daði Böðvarsson.
Jón Daði Böðvarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Þetta er frábær tilfinning. Ég held að það sé mjög flott skref að hefja atvinnumannaferilinn í Noregi," sagði Jón Daði Böðvarsson leikmaður Selfyssinga við Fótbolta.net í dag en hann hefur náð samkomulagi við norska félagið Viking um þriggja ára samning.

,,Þetta er ekki alveg klappað og klárt. Ég fer út næsta fimmtudag og skrifa undir. Vonandi er maður ekki að fara að slíta krossband fyrir læknisskoðunina, ég verð rólegur næstu dagana," bætti Jón Daði við léttur í bragði.

Jón Daði ferðaðist um Norðurlöndin í haust en hann æfði með Viking í Noregi sem og Djurgarden í Svíþjóð og Silkeborg í Danmrku.

,,Það er ekki auðvelt að fara á reynslu. Það þekkir þig enginn og þú þarft að sýna þig sem best. Ég er ánægður með að hafa gert þetta og það skilaði sér."

,,Af þeim liðum sem ég fór til þá held ég að Viking sé besti staðurinn til að byrja atvinnumannaferilinn. Ég held að þetta sé mjög gott skref. Aðstæðurnar eru frábærar og þjálfarateymið og leikmennirnir líka. Þetta er allt mjög vel skipulagt og lítur vel út þannig að ég býst við að vera fljótur að aðlagast."

Einn Íslendingur er á mála hjá Viking en það er Indriði Sigurðsson. ,,Indriði er fagmaður og hjálpar manni mikið. Það er mjög gott að hafa annan Íslending til að kenna manni á hlutina."

Jón Daði er uppalinn Selfyssingur og hann segir skrýtið að kveðja vínrauða búninginn.

,,Ég hef spilað í þessum sama búning síðan ég var sjö ára þannig að þetta er skrýtin tilfinning. Ég fer ánægður frá klúbbnum og þeir eiga þakkir skilið fyrir að hjálpa mér að ná þessum árangri. Logi (Ólafsson), Auðun (Helgason) og sérstaklega (Markus) Kislich hjálpuðu mér mikið að ná þessu markmiði. Ég fer stoltur frá Selfossi," sagði Jón Daði að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner