Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   lau 30. nóvember 2019 13:15
Ívan Guðjón Baldursson
Neville um Arsenal: Þessir leikmenn eru að fara að bregðast
Mynd: Getty Images
Gary Neville hefur tjáð sig um brottrekstur Unai Emery frá Arsenal. Neville studdi ávalt við bakið á Emery og vildi gefa honum meiri tíma, en spænski þjálfarinn var látinn hætta í gær.

Neville telur slakt gengi Arsenal ekki vera stjóranum að kenna heldur nýjum leikmönnum. Arsenal hefur bætt gífurlega mikið af leikmönnum við sig síðustu tvö ár en Neville hefur ekki miklar mætur á þeim og trúir ekki að neinn stjóri gæti gert góða hluti með þessa leikmenn.

„Það er alltaf sorglegt þegar þjálfari missir starfið sitt og núna varð að gera eitthvað því stuðningsmenn voru hættir að mæta á völlinn. Það var alltaf að fara að vera erfitt að taka við af Arsene Wenger," skrifar Neville í pistli sínum.

„Honum hefur verið sýnt mikið virðingarleysi undanfarnar vikur. Það hefur verið gert grín að hreim hans og látbragði en raunveruleikinn er sá að hann er topp þjálfari sem náði ekki alveg að festa sig í sessi hjá þessu félagi.

„Sumir af þessum varnarmönnum eru óþjálfanlegir. Við höfum séð Mustafi, David Luiz og Sokratis. Ég veit ekki hver ber ábyrgð á leikmannakaupum en það hefur verið gríðarlega mikið af breytingum í leikmannahópnum síðustu tvö ár.

„Það er ekki eins og Emery sé að segja við David Luiz að stíga upp úr vörninni tvisvar til þrisvar í leik. Hinir varnarmennirnir hafa líka verið að gera agaleg mistök, og miðjumennirnir líka.

„Emery siglir eflaust sáttur aftur yfir sundið. Hann skilur eftir sig leikmannahóp fullan af meðalleikmönnum. Ljungberg getur kannski gert eitthvað fyrir Arsenal en það mun ekki vara til langs tíma, þessir leikmenn eru alltaf að fara að bregðast aftur."


Freddie Ljungberg er tekinn við Arsenal þar til nýr stjóri finnst. Liðið er með 18 stig eftir 13 umferðir í ensku úrvalsdeildinni.
Athugasemdir
banner