Haaland, Toney, Gomes, Diomande, Gyokeres, Southgate, O'Neil, De Zerbi og fleiri góðir í slúðri dagsins
   þri 31. mars 2020 21:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Birkir: Kominn í sigursælt lið þar sem er mikil samkeppni
Hjá Val eru góðir leikmenn, mikil samkeppni og mikil gæði á æfingum.
Hjá Val eru góðir leikmenn, mikil samkeppni og mikil gæði á æfingum.
Mynd: Valur
Aukaspyrnumarkinu fagnað sumarið 2016.
Aukaspyrnumarkinu fagnað sumarið 2016.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Úr leik gegn Haukum.
Úr leik gegn Haukum.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Látið vaða.
Látið vaða.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Úr leik með 2. flokki árið 2015.
Úr leik með 2. flokki árið 2015.
Mynd: Heimasíða Þórs
Úr leik með U17 árið 2015.
Úr leik með U17 árið 2015.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Verðlaunaður.
Verðlaunaður.
Mynd: Getty Images
Mynd: Thorsport
Birkir Heimisson hafði verið á mála hjá Heerenveen í þrjú ár þegar hann neitaði nýjum samningi í fyrra. Eftir að Heimir Guðjónsson tók við sem þjálfari Vals var Birkir sá fyrsti sem fenginn var á Hlíðarenda.

Birkir er uppalinn Þórsari og lék ekki marga leiki með meistaraflokksliði Akureyrarliðsins áður en hann hélt til Hollands. Birkir varð tvítugur í febrúar og hafði fréttaritari samband við Birki og spurði hann út í ferilinn til þessa.

Þór það eina sem kom til greina
Við byrjum á grunninum; Birkir er Þórsari en kom aldrei neitt annað til greina?

„Ég var alltaf í Þór upp yngri flokkana. Ég bjó í Þorpinu og það kom aldrei neitt annað til greina," sagði Birkir við Fótbolta.net.

Var eitthvað eftirminnilegra en annað úr yngri flokkunum?
„Sigurinn á Shellmótinu í Eyjum er líklega það eftirminnilegasta."

Æskuvinir úr Þorpinu
Fréttaritari rak augun í frétt í kjölfar aukaspyrnumarks Birkis fyrir Þór árið 2016. Jóhann Helgi Hannesson, liðsfélagi Birkis hjá Þór, sagði boltann vera hjá Ágústi. Ágúst Eðvald Hlynsson er fyrirferðarmikill í 'Hinni hliðinni' hjá Birki. Hvernig er og var þeirra samband?

„Við erum æsukvinir. Hann bjó á Akureyri þegar hann var yngri og við vorum samherjar í liðinu sem vann Shellmótið."

Ekki í boði að klára tímabilið með Þór - Betri tilfinningu fyrir Heerenveen
Birkir kom inn í liðið hjá Þór árið 2016 og lék sex leiki með liðinu í næstefstu deild. Hann hafði verið undir smásjá liða erlendis og buðu bæði Celtic og Heerenveen honum samning. Reading hafði einnig fengið Birki tvisvar sinnum til sín á reynslu.

Hvernig var að koma inn í Þórsliðið árið 2016?
„Það var virkilega skemmtilegt að koma inn í hópinn. Þarna voru fullt af geggjuðum karakterum og við vorum að spila skemmtilegan fótbolta."

Kom eitthvað á óvart að fá tækifæri á þessum tíma?
„Ég hafði æft með liðinu allan veturinn svo það kom mér ekki mikið á óvart að vera hluti af liðinu þegar tímabilið byrjaði."

Fréttir á sínum tíma að bæði Celtic og Heerenveen hefðu áhuga. Stóð valið á milli þeirra tveggja?
„Ég fór á þessum tíma tvisvar sinnum út til Glasgow á reynslu. Þeir bjóða mér samning á sama tíma og Heerenveen. Á þeim tíma hafði ég betri tilfinningu fyrir Heerenveen og því valdi ég að skrifa þar undir."

Birkir skrifaði undir í júní árið 2016. Kitlaði að klára tímabilið með Þór?
„Það var ekkert annað í stöðunni, ég kem þarna beint inn í undirbúningstímabil og næ að kynnast strákunum í liðinu áður en tímabilið byrjaði. Það var mjög fínt þó ég hefði viljað klára tímabilið heim með Þór, það var einfaldlega ekki í boði."

Neitaði boði um að fara á reynslu til Liverpool
Birkir er stuðningsmaður Liverpool. Um svipað leyti og Birkir skrifar undir í Hollandi bauðst honum að fara til Liverpool.

„Honum stóð meðal annars til boða að fara til Liverpool og valið var erfitt en það er oft heppilegra að fara til klúbba sem eru ekki allt of stórir," sagði Ólafur Garðarsson, umboðsmaður Birkis, á sínum tíma.

Var erfitt að segja nei við boði frá Liverpool?
„Þetta var boð um að koma til reynslu til Liverpool sem ég neitaði. Þetta var ekkert alvarlegra en það."

Gekk mjög vel þar til kom að fótbrotinu
Í fréttatilkynningu árið 2016 kemur fram að Birkir hafi fengið ráð og meðmæli frá Alberti Guðmundsson og pabba hans, Benediktssyni. Albert hafði farið til PSV sumarið áður en hjá Heerenveen var Júlíus Magnússon. Hjálpaði að hafa Júlla til að aðlagast hraðar?

„Júlli var þarna úti og hann hjálpaði mér mikið við að aðlagast í byrjun."

Birkir var reglulega í fréttum fyrsta veturinn. Hann var valinn leikmaður september mánaðar og bæði skoraði og lagði upp reglulega. Hvernig var fyrsta tímabilið úti?

„Fyrsti veturinn minn úti var virkilega góður. Ég var að leggja upp mikið af mörkum og skoraði sjálfur tólf mörk. Allt var í blóma þegar ég svo fótbrotna í lokaleiknum."

Frá í átta mánuði
Birkir fótbrotnaði í síðasta leik tímabilsins tímabilið 2016/17 og er lengi frá vegna meiðslana. Hvernig var þessi tími?

„Ég er frá í átta mánuði. Það var erfitt að taka því og ferlið var sömuleiðis allt mjög erfitt í endurhæfingunni. Þetta var mjög krefjandi."

Birkir spilar þetta tímabil fjóra leiki með varaliði Heerenveen sem varð meistari. Hann lék þá 16 leiki með U19 ára liði félagsins.

Neitaði að skrifa undir nýjan samning
Birkir var eitt ár í viðbót hjá Heerenveen en í kjölfar leiktíðarinnar 2018/19 ákveður Birkir að endursemja ekki og er því án liðs.

Birkir nefnir í viðtali á sínum tíma að hann vildi spila aðalliðsbolta eða góðan varaliðsbolta.

„Ég vildi breyta til og prófa eitthvað nýtt. Ég var búinn að vera þarna í þrjú ár og fannst vera kominn tími til að prófa eitthvað annað."

Birkir segir frá því í 'Hinni hliðinni' að það hafi verið mikil vonbrigði að fá ekki tækifæri með aðalliði Heerenveen. Var Birkir nálægt því að fá tækifærið á því sviði?

„Ég spilaði nokkra æfingaleiki með aðalliðinu en var aldrei nálægt því að spila í deild eða bikar."

Mikill lærdómur af þremur frábærum árum
Birkir var beðinn um að líta til baka og gera upp þessi þrjú ár í Hollandi. Hvað er það helsta sem hann lærði hjá Heerenveen?

„Ég átti frábær þrjú ár hjá Heerenveen. Ég hef bara jákvæða hluti um klúbbinn að segja og fólkið sem þar starfaði. Umgjörðin mjög góð og góður fótbolti sem er spilaður í Hollandi."

„Ég lærði ótrúlega mikið á þessum þremur árum bæði innan og utan vallar. Hollendingurinn vill spila góðan fótbolta og var lögð mikil áhersla á það. Við vorum mikið í einföldum sendingaræfingum og æfðum mikið það að halda bolta innan liðs - það er klárlega eitthvað sem ég bætti mig töluvert í þennan tíma sem ég var úti."


Ekki besta staðan
Birkir var því samningslaus í byrjun júní í fyrra og skrifar ekki undir hjá Val fyrr en eftir tímabilið á Íslandi. Hvernig var að vera án félags í um hálft ár?

„Þetta var auðvitað ekkert besta staðan til að vera í en svona var þetta bara og ég vissi alltaf að það myndi koma eitthvað tilboð."

Fréttist að Horsens í Danmörku hefði skoðað Birki. Voru fleiri lið erlendis sem sýndu áhuga?
„Það var eitthvað í gangi en ekkert sem komst eitthvað lengra en áhugi fyrr en Valur kom inn í myndina."

Góðir leikmenn, mikil samkeppni og gæði
Hvað var það sem heillaði við Val?

„Það var margt sem heillaði við Val. Félagið er fyrst og fremst búið að vera mjög sigursælt síðustu 4-5 árin. Hjá liðinu eru góðir leikmenn, mikil samkeppni og mikil gæði á æfingum."

Fréttaritari reyndi að fiska upp úr Birki hvort önnur íslensk félög hefðu sýnt áhuga en Birkir hélt vel að sér spilunum í þeim efnum.

Birkir hefur komið við sögu í tveimur leikjum í Lengjubikarnum. Hvernig líst honum á hlutina hjá nýju félagi?

„Mér líst vel á allt hingað til. Ég fékk leikheimildina seint í febrúar en að öðru leyti er ég ánægður með allt.

Hvar býst Birkir við því að spila á vellinum þegar hann spilar hjá Val?
„Ég spilaði alltaf aftastur á miðju hjá Heerenveen en það kemur bara í ljós hvar Heimir (Guðjónsson) stillir mér upp."

Birkir fékk eina bónusspurningu að lokum. Hann sagði frá því í 'Hinni hliðinni' að hann væri á lausu en allir leikmenn liðsins á föstu. Er skrítin stemning að vera eini í hópnum á lausu?

„Nei nei, það er ekkert skrítin stemning. Ég held að það séu fáir að velta sér upp úr þessu," sagði Birkir að lokum.

Sjá einnig:
Hin hliðin - Birkir Heimisson (Valur)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner