Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 31. maí 2020 10:00
Ívan Guðjón Baldursson
Van Gaal: Fékk ekki einn leikmann sem ég bað um
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Louis van Gaal fékk að vera við stjórnvölinn hjá Manchester United í tvö ár áður en hann var rekinn til að gera pláss fyrir Jose Mourinho.

Van Gaal var rekinn eftir sigur í úrslitaleik FA bikarsins en hann bjóst ekki við brottrekstrinum og hefur átt erfitt með að kyngja honum. Nú er hinn 68 ára gamli Van Gaal hins vegar kominn á eftirlaun.

Hollendingurinn hefur oft tjáð sig um dvöl sína hjá Manchester United en í nýlegu viðtali gagnrýndi hann stjórn félagsins harkalega fyrir stefnu í leikmannakaupum meðan hann var við stjórnvölinn.

Van Gaal segist hafa tekið við alltof gömlum leikmannahópi og ekki hafa fengið þá leikmenn sem hann bað um.

„Manchester United var ekki með gæðin til að vinna deildina. Þegar ég tók við félaginu voru tíu leikmenn komnir yfir þrítugt og fimm þeirra voru eldri 35 ára. Þegar ég kom inn þá sagðist ég ætla að yngja upp í liðinu og lét vita hvaða leikmenn ég vildi fá. Ég fékk ekki einn leikmann af þeim sem ég bað um," sagði Van Gaal við Voetbal International.

„Þetta er félag sem veltir 600 milljónum punda og getur ekki keypt leikmennina sem þú þarft. Ef ég fékk leikmann sem ég vildi þá var hann í sjöunda sæti á óskalistanum. Ég bjóst ekki við þessu hjá ríkasta knattspyrnufélagi heims."

Á fyrsta ári Van Gaal við stjórnvölinn eyddu Rauðu djöflarnir rúmlega 150 milljónum punda til að kaupa Ander Herrera, Luke Shaw, Marcos Rojo, Falcao, Daley Blind og Angel Di Maria.

Á öðru ári hans keypti félagið Memphis Depay, Anthony Martial, Morgan Schneiderlin, Matteo Darmian, Sergio Romero, Victor Valdes og Bastian Schweinsteiger.

„Það sem gerðist þegar við reyndum að kaupa leikmann var að félög snarhækkuðu verðmiðann. Allir vita að Man Utd er ríkt félag og þess vegna er það látið borga alltof mikið á leikmannamarkaðinum. Ég þurfti að sætta mig við leikmenn númer sjö eða átta á óskalistunum mínum, félagið borgaði alltof mikið fyrir þá og svo var ég dæmdur útfrá því.

„Þrátt fyrir allt það neikvæða þá vann ég FA bikarinn með félaginu. Það er stærsta afrek ferils mins."


Á þjálfaraferlinum vann Van Gaal hollensku deildina, bikarinn, Evrópudeildina og Meistaradeild Evrópu með Ajax, spænsku deildina og bikarinn með Barcelona og þýsku deildina og bikarinn með Bayern München. Þar að auki vann hann hollensku deildina með AZ Alkmaar 2009 og hreppti bronsverðlaun með hollenska landsliðinu á HM 2014.
Athugasemdir
banner
banner
banner