fös 31. júlí 2020 06:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
ÍBV endaði með tíu heimamenn: Gefa allt fyrir Vestmannaeyjar
ÍBV fór áfram í bikarnum með 3-1 sigri á KA.
ÍBV fór áfram í bikarnum með 3-1 sigri á KA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það hefur stundum verið þannig með ÍBV að liðið samanstendur af fleiri erlendum leikmönnum en íslenskum.

Má til dæmis fara til baka í fyrra, í stjóratíð Portúgalans skemmtilega Pedro Hipolito. Fyrsti leikur í Pepsi Max-deildinni, þá mætti ÍBV liði Fylkis á Hásteinsvelli og var niðurstaðan 3-0 tap. Í byrjunarliði ÍBV voru sjö erlendir leikmenn og á bekknum voru tveir til viðbótar.

Í leiknum þar á eftir tapaði liðið aftur 3-0, þá gegn verðandi Íslandsmeisturum KR. Aftur voru sjö erlendir leikmenn í byrjunarliðinu og tveir erlendir leikmenn á bekknum.

Það var því athyglisvert í gær þegar ÍBV spilaði gegn KA í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins.

Það voru þrír erlendir leikmenn í byrjunarliðinu, en undir lok leiksins voru tíu uppaldir Eyjamenn inn á vellinum ásamt Gary nokkrum Martin.

ÍBV vann leikinn, sem var framlengdur, 3-1, en nánar má lesa um hann hérna.

„Það er frábært og við höfum lagt það upp að gefa þessum ungu strákum í Vestmannaeyjaliðinu tækifæri í sumar. Þeir hafa fengið tækifæri og staðið sig mjög vel. Þeir sýndu það í dag að þeir eru tilbúnir að fórna sér í málstaðinn," sagði Helgi Sigurðsson, þjálfari ÍBV, eftir leikinn.

„Á síðasta ári vorum við með betri leikmenn en núna erum við með betra lið. Erlendu leikmennirnir í fyrra voru betri fótboltamenn, en þetta skipti ekki eins miklu máli fyrir þá. Þessir strákar gefa allt fyrir Vestmannaeyjar. Stundum er betra að vera með betra lið en bertri leikmenn," sagði Gary Martin eftir leikinn en viðtölin má bæði sjá fyrir neðan.


Helgi Sig: 'Masterplanið' gekk eftir
Gary Martin: Auðveldara en í Lengjudeildinni
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner