Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 07. september 2018 15:00
Magnús Már Einarsson
Álitsgjafar spá í leik Breiðabliks og Þórs/KA
Breiðablik og Þór/KA eru að berjast um Íslandsmeistaratitilinn.
Breiðablik og Þór/KA eru að berjast um Íslandsmeistaratitilinn.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Úr fyrri leik liðanna í sumar.
Úr fyrri leik liðanna í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Breiðablik og Þór/KA mætast í toppslag í Pepsi-deildinni á Kópavogsvelli klukkan 14:00 á morgun. Einungis tvö stig skilja liðin að þegar þrjár umferðir eru eftir og leikurinn gæti ráðið úrslitum í titilbaráttunni.

Fótbolti.net fékk nokkra álitsgjafa til að spá í spilin fyrir leikinn á morgun.

Sjá einnig:
Jói rýnir í toppslaginn: Spáir sigurmarki undir lokin



Helena Ólafsdóttir, Pepsi-mörkin
Breiðablik 1 - 1 Þór/KA
Mér finnst mjög erfitt að spá fyrir um úrslit þessa leiks. Blikar eru efstar með 40 stig og ríkjandi meistarar í öðru sæti með 38 stig. Bæði lið búin að tapa fáum stigum og fá á sig jafn mörg mörk eða 8. Norðan stelpur hafa þó skorað 45 mörk á meðan Blikar hafa skorað 36. Ég hallast á jafntefli en tel að það verði ekki mörg mörk skoruð en held að þetta fari 1-1. Byggi þetta á því að bæði lið fá ekki á sig mörg mörk en skora alltaf. Stephany kemur Þór/KA yfir en Berglind Björg mun jafna enda skorar hún úr þeim færum sem hún fær fyrir Blika þessa dagana. Ef Borgarstjórinn og Sandra María eru í stuði þá gæti þessi spá farið í allt aðra átt og líka ef Agla María ásamt Berglindi láta ljós sitt skína.

Sem sagt erfitt að spá en ég á von á hörku leik sem getur farið á alla vegu. Arna Sif var meidd fyrir landsleikjahléið og ef hún er ekki spilfær fyrir Þór/KA í þessum leik gæti það reynst þeim erfitt varnarlega í leiknum. Hörkuleikur framundan sem verður gaman að fylgjast með.

Sindri Sverrisson, Morgunblaðið
Breiðablik 1 - 2 Þór/KA
Akureyringar eru að fara í fáránlega erfiða leikjadagskrá en ég held að þær byrji á að sækja þrjú stig í Kópavoginn. Sandra María Jessen mætir grimm eftir að hafa fylgst með landsleikjunum og setur bæði mörk Þórs/KA. Agla María Albertsdóttir minnkar muninn fimm mínútum fyrir leikslok. Þetta verður ekkert sérstaklega opinn leikur en við fáum samt þrjú mörk.

Ástrós Ýr Eggertsdóttir, Vísir
Breiðablik 3 - 2 Þór/KA
Þór/KA er eina liðið sem hefur unnið Blika í meira en ár, fyrir utan einhverja undirbúningstímabilsleiki, og Blikar hljóta að vera komnar með upp í kok á að tapa fyrir þeim. Þetta verður markaleikur, bæði þessi lið búin að raða inn mörkunum í sumar og þrír markahæstu leikmenn sumarsins að mætast, en ég held Blikarnir taki þetta. Það er smá spurningamerki hvort það þessir landsleikir sitji eitthvað í stelpunum en manni finnst að þau vonbrigði ættu frekar að kveikja í stelpunum sem voru á ferðinni þar að komast út á völl og sækja sigur sem líklega tryggir
Íslandsmeistaratitil.

Björgvin Stefánsson, KR
Breiðablik 0 - 1 Þór/KA
Allar mínar spár um Pepsi deild kvenna fram að þessari hafa gengið eftir. Það er skjalfest og til á upptöku í höfuðstöðvum.
Landkrabbarnir í Breiðablik hafa aldrei migið í saltan sjó og vita ekki að það kann eigi góðri gæfu að stýra að pissa upp í vindinn.
Þetta er ekki öltennismót á Októberfest heldur leikur um sjálfan Íslandsbikarinn! Akureyrarstúlkur eru hinsvegar eldri en tvævetra í þessum bransa og þar verður mannskapurinn klár í bátana. Upp með sokkana og allir upp á dekk. Markið kemur seint í leiknum eftir fyrirgjöf frá stjórnborða, beint á pönnuna á Söndru Maríu Jessen og þannig enda leikar. Þór/KA skorar, Breiðablik ekki.

Máni Pétursson, Pepsi-mörkin
Breiðablik 1 - 1 Þór/KA
Þetta verður hörkuleikur. Hef enga trú á miklum markaleik. Blikarnir eru besta varnarlið síðustu ára og það skiptir engu hver er í vörn svo lengi sem Sonny sé í markinu. Ég ætla að skjóta á 1-1. Blikar taka forystu og síðan mun Þór/KA jafna eftir þunga sokn í lokin.

Orri Sigurður Ómarsson, Sarpsborg
Breiðablik 1 - 2 Þór/KA
Konurnar fra Akureyri taka þennan leik. Þær kunna að vinna þetta mót eftir tímabilið í fyrra og þetta er svipaður kjarni hjá þeim. Eina tap UBK kom einmitt a moti Þór/KA í sumar og ég held að þær viti veikleika UBK. Mayor setur tvö mörk þar sem að Jessen kemur full af orku og snarbrjáluð eftir landsleikina og hun leggur bæði mörkin upp með einhverjum instagram trikkum. Alexandra skorar fyrir UBK.

Draumaliðsdeild 50skills
Mundu að gera breytingar á þínu liði í Draumaliðsdeild 50skills. Hægt er að skrá sig í allt sumar. Markaðurinn lokar klukkutíma fyrir fyrsta leik umferðarinnar.
Smelltu hér til að taka þátt í Draumaliðsleiknum!
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner