Eiður Smári Guðjohnsen mun á miðvikudag fara í myndatöku þar sem meiðsli hans verða skoðuð. Eiður tvíbrotnaði á fæti í leik með liði sínu, AEK Aþenu, þann 15. október síðastliðinn.
„Það var sagt við okkur í byrjun að þetta væru líklega sex mánuðir en það hefur komið fyrir að menn séu fjóra mánuði að koma til baka. Nú eru liðnir um fjórir mánuðir og við vonum að það komi í ljós að beinið sé búið að gróa," segir Arnar Grétarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá gríska félaginu.
„Ef það er þá held ég að það þurfi svo tvær til þrjár vikur í að beinið verði nægilega sterkt svo hann geti farið að æfa á fullu. Þá myndi ég ætla að hann þurfi fjórar til fimm vikur til að koma sér í stand. Þá erum við komnir með þessa sex mánuði sem stefnir í."
AEK er sem stendur í fjórða sæti grísku deildarinnar.
„Ég geri ráð fyrir því að við komumst í umspil í deildinni, í þessu umspili eru fjögur lið og því sex leikir. Það er spilað mjög þétt þar. Eiður gæti dottið inn í það og við látum okkur dreyma um það. Það kemur samt betur í ljós eftir myndatökuna á miðvikudaginn."
„Aðalatriðið í þessu er að fara ekki of snemma af stað og koma í veg fyrir að það komi sprunga í brotið. Þá er betra að hann missi alfarið af þessum umspilsleikjum," segir Arnar.
„Það er nóg af spurningamerkjum í þessu."
Athugasemdir