Kjartan Henry Finnbogason, framherji KR, mun missa af næstu leikjum liðsins vegna meiðsla. Kjartan Henry tábrotnaði gegn Blikum í síðustu viku og hann meiddist síðan á liðbandi í hné í leiknum gegn Grindavík um helgina.
,,Ég tábrotnaði þegar við Kiddi (Kristinn Jónsson) vorum aðeins að kýtast út í hvorn annan. Ég æfði ekkert fyrir Grindavíkurleikinn en reyndi síðan að vera með og var kannski að beita mér illa því að snéri upp á hnéið á mér í lok fyrri hálfleiks þar," sagði Kjartan Henry við Fótbolta.net í dag.
,,Ég er með einhverja smá rifu í liðbandinu. Það er alltaf sagt að það taki 4-6 vikur en ég er ekki að fara að vera meiddur í 4-6 vikur, ég hef ekki tíma í það."
,,Ég sleit þetta liðband þegar ég var hjá Falkirk á sínum tíma og þetta er ekki næstum því jafnmikill sársauki. Maður verður að vera harður, það eru bara 4 mánuðir sem maður fær að spila grasi og maður verður að vona það besta."
Kjartan Henry verður ekki með KR gegn Fylki á fimmtudag og gegn ÍBV á í Borgunarbikarnum á mánudag en hann mun taka út leikbann í þeim leik. KR mætir Keflavík á fimmtudag í næstu viku og Kjartan vonast jafnvel til að verða klár þar þó að það sé ólíklegt.
,,Ég verð ekki með í næstu 2-3 leikjum allavega. Ég fæ bestu fáanlegu meðferðina fram yfir helgi og síðan verð ég að vera duglegur sjálfur," sagði Kjartan.
Athugasemdir