Kristján Valdimarsson, fyrirliði Fylkis, fór úr axlarlið í 2-1 tapi liðsins gegn KR í gær. Kristján meiddist á 54. mínútu leiksins en KR-ingar fengu þá vítaspyrnu þegar David Elebert braut á Þorsteini Má Ragnarssyni. Kristján hafði hent sér í tæklingu og fékk leikmennina ofan á sig í kjölfarið.
,,Ég renni mér í tæklingu og er með hendina fyrir aftan á mig og síðan flýgur annað hvort Steini eða David ofan á mig. Ég var með hendina á versta stað og negli mig úr axlarlið," sagði Kristján við Fótbolta.net í dag.
,,Ég fór upp á sjúkrahús og fékk einn góðan skammt af morfíni og hann skellti mér í lið. Síðan fór ég heim að grenja, það var ekkert flóknara en það," sagði Kristján léttur í bragði en hann vonast til að ná sér sem fyrst.
,,Þeir segja 4-6 vikur en ég ætla að sjá til hvernig ég verð eftir helgi þegar ég fer í myndatöku. Ég vona að ég verði ekki frá í 4-6 vikur, þetta er alltof stutt mót til að fara að væla mikið."
Kristján hefur einungis leikið fimm af tíu leikjum Fylkis í Pepsi-deildinni í sumar en meiðsli hafa verið að hrjá hann.
,,Þetta hefur ekki verið mitt sumar. Ég hef verið í veseni með nárann og verið inn og út. Ég fann ekki neitt fyrir því í gær og síðan kom þetta sem eru vonbrigði en maður getur ekkert gert í þessu."
Var eins og pandabjörn í nokkra daga:
Kristján segir að sársaukinn í gær sé einn sá mesti sem hann hafi fundið fyrir á ferlinum en hann hafi þó lent í því fyrra.
,,Ég fór úr axlarlið fyrir átta árum og það var verri sársauki. Það var síðan ennþá verra þegar Fjalar (Þorgeirsson) rotaði mig í Evrópuleik. Hann fór með hnéið í andlitið á mér og ég var eins og pandabjörn í nokkra daga eftir það. Þetta er bara partur af prógraminu, menn verða að taka þessu," sagði Kristján að lokum.
Athugasemdir