Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 24. janúar 2019 11:39
Elvar Geir Magnússon
Í nærmynd
Nafn Kristófers fer stækkandi í Hollandi - „Ungur og geri mistök"
Kristófer Ingi í U21-landsleik.
Kristófer Ingi í U21-landsleik.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristófer hefur leikið fyrir öll yngri landslið Íslands.
Kristófer hefur leikið fyrir öll yngri landslið Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hinn 19 ára Kristófer Ingi Kristinsson var hetja hollenska úrvalsdeildarfélagsins Willem II í bikarnum í gær, hann kom inn sem varamaður þegar rúmlega stundarfjórðungur var eftir gegn Twente og skoraði sigurmarkið með skalla. Willem II er komið í undanúrslitin.

„Það er kalt eins og á Íslandi og það er fínt!" sagði sagði sóknarleikmaðurinn ungi með bros á vör við hollenska fjölmiðla eftir leikinn en það var ansi napurt þegar leikurinn fór fram.

„Ég skora ekki oft með skalla og þetta var góð tilfinning. Alvöru sóknarmannsmark. Það var líka léttir að við þurftum ekki að fara í framlengingu og spila 120 mínútur, það er mikið leikjaálag."

Reis upp eftir vonbrigðaleik
Kristófer er með báðar fætur á jörðinni. Um helgina spilaði hann sinn fyrsta byrjunarliðsleik í hollensku úrvalsdeildinni fyrir Willem II, gegn NAC Breda. Þar var hann tekinn af velli í hálfleik.

„Þetta mark er léttir. Leikurinn gegn NAC var ekki minn besti og það er gott að ná þessu marki og hjálpa liðinu. Ég vil ekki kalla þetta hefnd. Ég er ungur og ég geri mistök, ég fékk annað tækifæri og það er gott að borga til baka," segir Kristófer.

„Í fótbolta þarftu að kunna að takast á við vonbrigði. Þú þarft að vera andlega sterkur og leggja þig alltaf allan fram. Ég hef gert það."

Með fótboltann í blóðinu
„Félagaskiptin eru mikil viðurkenning bæði fyrir hinn metnaðarfulla Kristófer Inga sem og það starf sem unnið er í yngri flokkum Stjörnunnar," skrifaði Stjarnan í Garðabæ þegar hún tilkynnti það sumarið 2016 að Kristófer Ingi hefði samið við Willem II.

Kristófer hafði ekki spilað Íslandsmótsleik með meistaraflokki Stjörnunnar en vakti athygli á Bose æfingamótinu í desember 2015 þegar hann, sextán ára gamall, varð markahæstur og skoraði besta markið. Markið má sjá hér.

Aðalstaða Kristófers er sem fremsti maður en hann hefur áður á ferlinum spilað aðrar sóknarstöður. Hann vakti athygli ungur og hafði farið til reynslu hjá Heerenveen og Willem II áður en hann samdi við síðarnefnda félagið. Hann er með fótboltann í blóðinu en faðir hans er Kristinn Lárusson sem lék fjölmarga leiki í efstu deild; fyrir Val, Stjörnuna og ÍBV.

Þægilegt að hafa matinn hennar mömmu
Kristófer hefur leikið fyrir öll yngri landsliðin og Fótbolti.net ræddi við hann í október síðastliðnum fyrir U21-landsleik gegn Spáni, en hann á sex U21-landsleiki.

Kristófer spilaði sinn fyrsta leik í hollensku úrvalsdeildinni í febrúar í fyrra en þegar viðtalið var tekið hafði hann nýlega skorað sitt fyrsta mark í hollensku úrvalsdeildinni, og það eina til þessa, þegar hann tryggði jafntefli gegn Excelscior.

Í viðtalinu sagði hann hollenska fótboltaumhverfið henta sér mjög vel.

„Maður bætir sig mikið í fótbolta þarna. Það er mikið lagt upp úr tækni og að spila boltanum. Það hentar mér mjög vel að vera þarna. Fjölskyldan er með mér úti og það er þægilegt fyrir mig, mamma eldar mat fyrir mig. Ég er mjög heppinn með fjölskylduna og gott að vera þarna," sagði Kristófer.

Hann var svo beðinn um að lýsa sjálfum sér sem leikmanni, fyrir þá lesendur sem ekki þekkja til hans. „Ég er góður á boltanum, hraður og góður að taka menn á."


Mark Kristófers í gær:



Athugasemdir
banner
banner