Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
banner
   þri 25. nóvember 2008 09:15
Hafliði Breiðfjörð
Viðar Örn Kjartansson: Erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið
Viðar Örn í búningi ÍBV þar sem hann mun leika næstu árin eftir að hafa gengið til liðs við félagið frá Selfossi.
Viðar Örn í búningi ÍBV þar sem hann mun leika næstu árin eftir að hafa gengið til liðs við félagið frá Selfossi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viðar Örn Kjartansson, 18 ára gamall framherji úr liði Selfoss gekk um helgina í raðir ÍBV sem leikur í Landsbankadeildinni á komandi leiktíð. Hann hefur verið meðal efnilegustu leikmanna landsins undanfarin ár og tekur nú skrefið upp í efstu deild.

,,Það er stórt skref að fara í efstu deild og ég tel mig vera tilbúinn að fara í hana. Ég ætla að sýna fram á það og vinna mér sæti í byrjunarliðinu hjá ÍBV,” sagði Viðar Örn í samtali við Fótbolta.net í dag en hann var í lok tímabilsins valinn efnilegasti leikmaður 1. deildar í vali þjálfara og fyrirliða fyrir Fótbolta.net.

Hann yfirgefur nú lið Selfoss þar sem hann hefur leikið allan sinn feril og kom upp úr yngri flokkunum. Hann hefur leikið með meistaraflokki síðan sumarið 2006 og síðan þá skorað 14 mörk í 50 leikjum fyrir liðið í deild og bikar.

,,Þetta er sennilega erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu. Ég hugsa að ég eigi ekki eftir að sjá eftir að hafa tekið hana og ætla bara að sanna að ég eigi heima þarna og að ÍBV eigi heima í efstu deild. Ég tel að þeir eigi að vera þar,” sagði Viðar Örn.

Viðar hefur undanfarin tvö ár leikið með U17 og U19 ára landsliðum Íslands og skorað fjögur mörk í 8 leikjum með U17 ára liðinu auk þess sem hann lék tvo leiki með U19 ára liðinu í september, báða gegn Norður Írlandi.

,,Það var eitthvað um fyrirspurnir frá öðrum liðum en ekkert alvarlegt. En ÍBV var allan tímann númer eitt í þessu hjá mér. Það verður ekkert mál að flytja til Vestmannaeyja fyrir mig,” sagði Viðar sem spilaði tvisvar gegn ÍBV í sumar með Selfossi. Hann hlakkar til að verða hluti af liðinu núna.

,,ÍBV mjög vel spilandi lið með fullt af góðum leikmönnum sem geta gert góða hluti. Það er mikil stemmning alltaf í kringum ÍBV liðið og ég efast ekki um að ég og Elías Ingi [sem gekk einnig til liðs við félagið um helgina] munum ekki gera neitt nema hjálpa til við að halda henni áfram og bæta við hana,” sagði Viðar Örn að lokum í spjalli við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner