Kovac orðaður við stjórastól Liverpool - Newcastle vill Gibbs-White - Dewsbury-Hall orðaður við Tottenham
   fös 01. mars 2024 14:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Gary Martin ekki áfram á Selfossi og stefnir hærra - „Á nokkur góð ár eftir"
Gary Martin.
Gary Martin.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Það verður fróðlegt að sjá hvað Gary gerir næst.
Það verður fróðlegt að sjá hvað Gary gerir næst.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Enski sóknar- og miðjumaðurinn Gary Martin hefur undanfarið æft með KR en hann er að leita sér að nýju félagi. Gary segir í samtali við Fótbolta.net að hann hafi komist að samkomulagi við Selfoss um að leiðir muni skilja og er hann að leita að nýrri áskorun.

Gary hefur leikið með Selfossi frá 2021 og gert fína hluti þar, en Selfoss féll úr Lengjudeildinni síðasta sumar og spilar í 2. deild næsta sumar.

„Selfoss og ég komumst að samkomulagi eftir síðasta tímabil að við myndum ekki halda áfram okkar samstarfi vegna þess að félagið ætlar sér að byggja á ungum og uppöldum leikmönnum. Það eru efnilegir sóknarmenn að koma upp og þeir vilja búa til pláss fyrir þá. Metnaður minn er líka meiri en að spila í 2. deild. Ég hef notið þess að vera á Selfossi, elska bæinn, aðstöðuna og allt þar en ég stefni hærra í fótboltanum," segir Gary við Fótbolta.net.

„Þess vegna sömdum við félagið um að ég myndi mæta í febrúar til Íslands og æfa með öðrum félögum í þeirri von að fá samning í Bestu deildinni eða Lengjudeildinni."

Æfir á kunnum slóðum
Gary kom fyrst til Íslands árið 2010 og sló í gegn með ÍA. Þaðan fór hann í KR þar sem hann var virkilega góður. Hann hefur einnig leikið með Víkingi, Val og ÍBV hér á landi. Hann hefur verið að æfa hjá sínu gamla félagi í Vesturbænum og hefur notið þess mjög.

„Ég talaði við Gregg (Ryder, þjálfara KR) og spurði hvort ég mætti æfa með þeim þar sem ég vildi komast aftur í mitt besta stand. Hann sagði að það yrði ekkert vandamál og ég yrði boðinn velkominn í KR. Það hefur verið stórkostlegt að æfa með KR þar sem þeir eru með einn besta leikmannahóp landsins og ég get séð það af hverju Guðjón (Örn Ingólfsson) er talinn besti styrktarþjálfari á Íslandi," segir Gary.

„Tempóið á æfingum er mjög hátt og það er mikil ákefð. Þetta hafa verið frábærar vikur og ég hef notið hverrar mínútu."

Hefur rætt við nokkur félög
Gary hefur rætt við nokkur félög á Íslandi en hans helsta markmið er að reyna að komast að í Bestu deildinni ef möguleiki er á þvií.

„Ég trúi því að þegar ég er kominn hingað að þá séu félög í Bestu deildinni og Lengjudeildinni tilbúin að horfa á mig sem möguleika fyrir leikmannahópa sína og þar liggur fókusinn hjá mér. Ég er búinn að vera æfa með KR og ég finn það að ég á nokkur góð ár eftir og ég get auðveldlega spilað á þessu stigi. Í fótbolta þá lokarðu aldrei neinum hurðum."

„Ég hef rætt við nokkur félög á Íslandi og ég er opinn fyrir öllu en markmiðið mitt er að reyna aftur fyrir mér í Bestu deildinni hjá rétta félaginu. Ef það gengur ekki eftir, þá sjáum við bara hvað gerist. Ég elska allar áskoranir og ég útiloka ekki neitt," sagði Gary Martin að lokum en það verður gaman að sjá hvað hann gerir næst.
Athugasemdir
banner
banner