Man Utd á eftir De Ligt - Greenwood eftirsóttur - Olise nálgast Chelsea - Mourinho vill fá Lindelöf
   mið 01. júní 2016 10:45
Björn Már Ólafsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Lið ársins á Ítalíu
Björn Már Ólafsson
Björn Már Ólafsson
Hinn síungi Buffon er einn af leikmönnum Juventus í liðinu.
Hinn síungi Buffon er einn af leikmönnum Juventus í liðinu.
Mynd: Getty Images
Kalidou Koulibaly varnarmaður Napoli og Radja Nainggolan miðjumaður Roma eru báðir í liðinu.
Kalidou Koulibaly varnarmaður Napoli og Radja Nainggolan miðjumaður Roma eru báðir í liðinu.
Mynd: Getty Images
Alessandro Florenzi, kantmaður Roma.
Alessandro Florenzi, kantmaður Roma.
Mynd: Getty Images
Paul Pogba var magnaður með Ítalíumeisturunum.
Paul Pogba var magnaður með Ítalíumeisturunum.
Mynd: Getty Images
Paulo Dybala er í framlínunni.
Paulo Dybala er í framlínunni.
Mynd: Getty Images
Higuain raðaði inn mörkum með Napoli.
Higuain raðaði inn mörkum með Napoli.
Mynd: Getty Images
Hinn 16 ára gamli Gianluigi Donnarumma er á bekknum.
Hinn 16 ára gamli Gianluigi Donnarumma er á bekknum.
Mynd: Getty Images
Leonardo Pavoletti er á bekknum.
Leonardo Pavoletti er á bekknum.
Mynd: Getty Images
Þá er komið að því að setja saman lið ársins í Serie-A. Fimmta tímabilið í röð stakk Juventus af með Lo Scudetto og það þýðir að í fimmta skiptið mun ég fá athugasemdir við að ég sé ekki með allt Juventus-liðið í liði ársins. En sem endranær ætla ég að reyna að hafa þetta fjölbreytt og hafa líka í liðinu leikmenn úr minni liðum sem stóðu uppúr á tímabilinu.


Markvörður: Gianluigi Buffon, Juventus.
Þetta kemur svo sem ekkert á óvart. Stórkostlegur eins og hans er von og vísa, stjórnar varnarlínunni fyrir framan sig eins og hershöfðingi og sýnir að hann er enn í hæsta gæðaflokki.

Hægri bakvörður: Elseid Hysaj, Napoli.
Hysaj hefur líkt og varnarlína Napoli öll verið frábær á tímabilinu. Hann er öflugur sóknarlega og með fínar fyrirgjafir. Þá skilar hann líka varnarhlutverkinu afar vel af sér. Hann er aðeins 22ja ára gamall og á því framtíðina fyrir sér.

Miðvörður: Andrea Barzagli, Juventus.
Að mínu mati besti varnarmaður Juventus í ár, að þeim Bonucci og Chiellini ólöstuðum. Reynslumikill sem bætir upp það sem hann skortir í hraða með leikskilningi og krafti.

Miðvörður: Kalidou Koulibaly, Napoli.
Annar varnarmaður frá Napoli. Þeir sem hafa séð Napoli spila á undanförnum tímabilum skilja vart hvað hefur gerst fyrir varnarleikinn undir stjórn Maurizio Sarris. Allt í einu fóru varnarmenn liðsins að hætta að gera klaufaleg mistök og spiluðu eins og þeir hefðu aldrei gert annað en að koma í veg fyrir að andstæðingurinn skoraði. Koulibaly sérstaklega á hrós skilið fyrir framistöðu sína og hafa stór félög sýnt áhuga á honum nýlega. Algjör klettur í vörninni.

Vinstri bakvörður: Mario Rui, Empoli.
Það er aðdáunarvert að sjá hvernig Empoli hefur staðið sig í deildinni í ár eftir að hafa misst fleiri af sínum bestu leikmönnum í fyrra. Mario Rui hefur átt frábært tímabil og eru mörg stór félög að líta til hans hýru auga og ekki að ástæðulausu. Hann verður einn af alls 5-6 leikmönnum sem Empoli mun missa í sumar, samkvæmt því sem haft er eftir forseta liðsins.

Hægri kantmaður: Alessandro Florenzi, Roma.
Rómverjinn hefur átt frábæru tímabili að fagna með Roma og var hann að sjálfsögðu valinn í liðið. Það erfiðasta var hins vegar að ákveða hvar hann skyldi spila í þessu draumaliði því hann hefur spilað nær allar stöður á vellinum í vetur, að miðvarðar- og markvarðarstöðunum undanskildum. Lengst af spilaði hann í hægri bakverði en hann er með eiginleika sem nýtast oft best fram á við. Gríðarlega gott touch, auga fyrir spili og frábær skotfótur.

Miðjumaður: Paul Pogba, Juventus.
Pogba fer að verða sjálfskrifaður í lið ársins á Ítalíu og ekki að ástæðulausu. Líkamlegir, tæknilegir, leikskilningslegir og jafnvel fagurfræðilegir yfirburðir í alla staði. Drengurinn er eins manns her á miðjunni og getur unnið leiki upp á eigin spýtur.

Miðjumaður: Radja Nainggolan, Roma.
Nainggolan er annar leikmaður sem hefur áður verið valinn í lið ársins hjá mér. Hann lítur út fyrir að vera klassískur varnarsinnaður miðjumaður. Fljótur, góður tæklari og fjallgrimmur í návígjum. Hann býr samt líka yfir afar góðri tækni og þegar Luciano Spalletti tók við liðinu á miðju tímabili fór hann að spila í stöðu fremsta miðjumanns og skilaði hann nokkrum mikilvægum mörkum. Tvö þeirra skoraði hann með tæklingum (!) af ansi löngu færi. Það verður spennandi að fylgjast með honum á EM í sumar með Belgíu.

Vinstri kantmaður: Lorenzo Insigne, Napoli.
Insigne hóf tímabilið á fullu gasi og átti hvern stórleikinn á fætur öðrum með liði Napoli sem virtist óstöðvandi í upphafi tímabils. Meiðsli settu strik í reikninginn en það er öllum ljóst sem séð hafa hann spila að hann er mikilvægur hlekkur í sóknarleik Napoli. Lítill, léttleikandi með góðan fót. Gæti orðið X-faktor í liði Ítalíu á EM í sumar.

Sóknarmaður: Paulo Dybala, Juventus.
Dybala náði sér ekki alveg á strik í fyrstu leikjum tímabilsins og voru einhverjir farnir að setja spurningamerki við kaup Juventus á þessum fyrrum sóknarmanni Palermo. Allegri hafði samt tröllatrú á honum, og ekki að ósekju. Um leið og hann byrjaði að skora, þá hætti hann því ekki. Gríðarlega skemmtilegur leikmaður á að horfa og hann naut sín vel í líkamlega sterku Juventus-liði þar sem hann fékk tiltölulega frjálst hlutverk.

Sóknarmaður: Gonzalo Higuain, Napoli.
Loksins, loksins, loksins. Loksins skoraði framherji á Ítalíu yfir 30 mörk á einu tímabili en slíkt hafði ekki gerst síðan Luca Toni gerði það árið 2006. Higuain spilaði sem sannkallaðu stormsenter hjá Napoli og hann var ekkert að grínast með markafjöldann, sem hefði hæglega getað verið enn meiri. Hann hafði úr miklu að moða enda umkringdur þeim Callejon, Insigne og Hamsik.

Varamenn:
Gianluigi Donnarumma, AC Milan. 16 ára gamall og eignar sér markvarðarstöðuna hjá AC Milan. Hann er vaxinn eins og tröll og það er ekki að sjá að hann sé nýkominn á framhaldsskólaaldur. Hvað er eiginlega í vatninu í Stabia, heimabæ hans?

Sime Vrsaljko, Sassuolo. Frábær hægri bakvörður sem naut sín vel í skemmtilegu liði Sassuolo. Ein af ástæðum fyrir velgengni liðsins í deildinni í ár þegar liðið kom flestum á óvart.

Gonzalo Rodriguez, Fiorentina. Besti varnarmaður Fiorentina í ár. Byrjaði stórkostlega en dalaði talsvert, eins og raunar allt lið Fiorentina, þegar leið á tímabilið.

Stephan Lichtsteiner, Juventus. Frábært tímabil enn og aftur hjá Svisslendingnum á hægri væng Juventus. Það er ekki að ástæðulausu að stuðningsmenn Lazio kölluðu hann Roadrunner á sínum tíma eftir teiknimyndafígúrunni eldsnöggu.

Piotr Zielinski, Empoli. Kantmaður sem sýndi lipra takta hjá félaginu frá Toscana. Hann er á láni frá Udinese og mun yfirgefa Empoli í sumar.

Bruno Peres, Torino. Var með áætlunarferðir upp hægri kantinn hjá Torino úr bakvarðarstöðunni sinni. Hljómar það eins og lýsing á brasilískum bakverði? Skiljanlega, enda er hann brassi.

Marco Benassi, Torino. Annar Torino-leikmaður sem átti frábært tímabil. Ungur og ítalskur. Á framtíðina fyrir sér.

Leandro Paredes, Empoli. Elegant miðjumaður sem er á láni frá Roma. Leikstíll hans svipar svo mikið til leikstíls Miralem Pjanic, að margir spá því að ef Pjanic yfirgefur félagið, muni Paredes taka stöðu hans. Átti stórkostlegt tímabil og er orðaður við stór félög.

Franco Vazquez, Palermo. Ekki er hægt að segja margt fallegt um Palermo í ár, en Vazquez er ein af fáum ástæðum fyrir því að þeir náðu að halda sér uppi. Ber uppi sóknarleik liðsins og með ótal stoðsendingar.

Leonardo Pavoletti, Genoa. Markahæsti ítalski sóknarmaðurinn í deildinni í ár, og það fyrir lakt lið Genoa. Ekki langt frá því að komast í ítalska EM-hópinn.
Athugasemdir
banner
banner