Amorim bíður eftir leyfi - Nkunku og fleiri orðaðir við Man Utd - Endo eftirsóttur
   sun 01. október 2023 19:06
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Fram með annan fótinn uppi - ÍBV getur enn bjargað sér
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fram og ÍBV unnu leiki sína í neðri hluta Bestu deildarinnar í kvöld og er því ljóst að það er spennandi lokaumferð framundan í fallbaráttunni, þar sem fjögur lið geta enn fallið. ÍBV og Fylkir eru þó líklegust, þar sem hálfgert kraftaverk þarf að eiga sér stað til að annað hvort HK eða Fram falli.

Fram 1 - 0 KA
1-0 Þengill Orrason ('55)

Lestu um leikinn

Þengill Orrason svo gott sem bjargaði Fram frá falli með sigurmarki sínu gegn KA í dag. Framarar voru sterkari aðilinn og verðskulduðu sigurinn.

Fram komst nokkrum sinnum nálægt því að taka forystuna í fyrri hálfleik áður en Þengill var réttur maður á réttum stað í vítateig Akureyringa og skoraði eftir góða stoðsendingu með skalla frá Guðmundi Magnússyni.

Framarar voru áfram með yfirburði og óheppnir að tvöfalda ekki forystuna, en KA-menn voru einnig skeinuhættir en tókst ekki að skora. Niðurstaðan sannfærandi 1-0 sigur Fram sem ætlar sér ekki aftur niður í Lengjudeildina.

HK 0 - 1 ÍBV
0-1 Eiður Aron Sigurbjörnsson ('30, víti)

Lestu um leikinn

Eyjamenn eru áfram í fallsæti þrátt fyrir sigur á útivelli gegn HK, en þeir eru tveimur stigum á eftir Fylki í öruggu sæti.

Eiður Aron Sigurbjörnsson skoraði eina mark leiksins í 0-1 sigri úr umdeildri vítaspyrnu á 30. mínútu. „Tómas Bent sleppur í gegn og tekur þunga móttöku, Arnar markvörður mætir og fer fyrst í boltann og svo í Tómas en Vilhjálmur Alvar dæmir vítaspyrnu.
Röng ákvörðun að mínu mati,"
segir í textalýsingu Fótbolta.net.

HK-ingar voru sterkari aðilinn á heimavelli en þeim tókst ekki að skora. Guy Smit átti góðan leik á milli stanga ÍBV en Arnar Freyr Ólafsson átti einnig flottan leik í liði heimamanna og hélt þeim nokkrum sinnum inni í leiknum með mikilvægum markvörslum.

Undir lok leiksins komust heimamenn nálægt því að jafna með flottri aukaspyrnu en Eiður Aron var mættur niður á marklínuna til að bjarga. Anton Söjberg átti aukaspyrnuna og var líflegasti leikmaður vallarins í dag, en óheppinn að koma boltanum ekki í netið.

Nú þurfa Eyjamenn sigur í lokaumferðinni til að eiga möguleika á að bjarga sér frá falli. Þeir þurfa að vinna gegn botnliði Keflavíkur með sem mestum mun til að auka möguleika sína á að geta bjargað sér frá falli á markatölu ef til þess kemur.
Athugasemdir
banner
banner
banner