sun 01. desember 2019 21:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Gísli Eyjólfs: Slúður sem eykur sjálfstraustið hjá mér
Gísli gegn Vaduz í sumar.
Gísli gegn Vaduz í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í bikarúrslitaleiknum í fyrra.
Í bikarúrslitaleiknum í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gísli í leik í ágúst.
Gísli í leik í ágúst.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gísli Eyjólfsson sneri heim eftir lánsdvöl hjá Mjällby í Svíþjóð um mitt tímabil í sumar. Gísli var á láni hjá sænska félaginu frá Breiðablik. Lánstíminn var ekki liðinn en Gísli fékk tækifæri á að snúa heim og gerði það.

Lestu meira um ástæður heimkomunnar hér.

Gísli er 25 ára gamall miðjumaður sem hefur leikið 119 leiki í deild og bikar fyrir Breiðablik, Augnablik, Hauka og Víking Ólafsvík. Í þeim leikjum hefur hann skorað 21 mark.

Fótbolti.net hafði samband við Gísla og ræddi við hann um stöðu mála hjá sér. Fyrsta spurning var út í heimkomuna, hvað kom til að hann sneri til baka í Kópavoginn?

„Ég var að byrja flesta leiki með Mjällby en frammistaðan var ekkert frábær. Það voru margar ástæður sem spiluðu inní að ákveðið var að ég færi aftur til baka í Blikana."

„Ég er samt þakklátur fyrir þann tíma sem ég var þarna og þetta var mikill lærdómur fyrir mig,"
sagði Gísli við Fótbolta.net

Náði ekki að eigna sér sæti í liðinu hjá Blikum
Gísli kom í Blikaliðið í byrjun júlí og lék með liðinu 10 leiki í deild. Hann spilaði stærsta hluta leiksins í fimm leikjum (klukkutíma eða meira), u.þ.b. hálftíma í fjórum þeirra og einungis örfáar mínútur í eitt skiptið.

Þá var hann ónotaður varamaður gegn Stjörnunni. Honum tókst ekki að skora í leikjunum tíu. Gísli var spurður út í spiltímann og markaþurrðina.

„Tímabilið með Blikum eftir að ég kom heim voru mikil vonbrigði fyrir mig varðandi spilatíma og markaþurrð. Liðið stóð sig vel og hópurinn var virkilega góður."

„Ég var hungraður og vildi koma mér aftur á þann stað sem ég var á en náði ekki að festa mér sæti i liðinu. Allt þetta fer samt í reynslubankann og maður lærir af þessu og verður sterkari andlega."


Heyrt slúðrið frá vinum sínum
Einhverjar sögur hafa verið sagðar um áhuga bæði Vals og KR á Gísla. Hann var spurður út í stöðu sína hjá Breiðablik og sögurnar sem hafa heyrst.

„Staðan hjá mér í dag er góð, það er strembið undirbúningstímabil í gangi með nýjum þjálfurum með nýjar áherslur. Mér líður vel á þeim stað sem ég er í dag og spenntur fyrir komandi tímabili."

„Ég hef heyrt þetta slúður um þessi lið bara í gegnum vini mína og veit ekki hvað er mikið til í þessu. Þetta eykur bara sjálfstraustið mitt og gaman að heyra að einhver lið hafa áhuga á mér en ég er samningsbundinn Breiðablik."


Með marið rifbein
Gísli var að lokum spurður út í Bose-mótið en þar lék hann fyrstu tvo leikina en var ekki með í lokaleiknum.

„Ég spilaði fyrstu tvo leikina gegn KA og Val. Þeir leikir hafa verið góðir fyrir okkur leikmennina og held ég þjálfarana líka til að prófa okkur áfram í því sem þeir eru að leggja upp með."

„Úrslitin hafa reyndar ekkert verið spes en það fer vonandi að breytast. Ég gat ekki verið með í lokaleiknum vegna smávægilegra meiðsla, er með marið rifbein. Ég vonast til að byrja að æfa aftur eftir rúma viku,"
sagði Gísli að lokum.

Breiðablik endaði í neðsta sæti Riðils 1 í Bose-mótinu með tvö stig eftir leikina þrjá. Breiðablik endaði í 2. sæti í Pepsi Max-deildinni í sumar, annað árið í röð sem liðið endar í 2. sæti.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner