Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 01. desember 2022 11:39
Elvar Geir Magnússon
Suarez álitinn „djöfullinn sjálfur“ í Gana - Neitar að biðjast afsökunar á vörslunni
Luis Suarez á fréttamannafundinum.
Luis Suarez á fréttamannafundinum.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Gana og Úrúgvæ mætast í lokaumferð H-riðils á morgun. Enginn annar en Luis Suarez sat fyrir svörum á fréttamannafundi fyrir leikinn.

Þegar liðin áttust við á HM 2010 varð Suarez óvinur Ganverja númer eitt þegar hann varði boltann á línu með hendinni á lokamínútu framlengingarinnar í 8-liða úrslitum.

Hann kom í veg fyrir að Gana skoraði sigurmarkið og yrði þar með fyrsta Afríkuþjóðin til að komast í undanúrslit HM.

Suarez var rekinn af velli og Asamoah Gyan skaut í slána úr vítaspyrnunni. Suarez horfði á frá göngunum og trylltist úr fögnuði.

Úrúgvæ vann vítakeppnina og nú mætast liðin tólf árum síðar. Stuðningsmenn Gana þrá hefnd.

Sjá einnig:
Asamoah Gyan enn virkilega sár út í Suarez - „Fólk hatar hann"

Á fréttamannafundi Suarez sagði ganverskur fréttamaður að Suarez væri af mörgum í Gana álitinn „djöfullinn sjálfur", hann spurði úrúgvæska sóknarmanninn hvort hann væri tilbúinn að biðjast afsökunar?

„Ég mun ekki biðjast afsökunar. Það var leikmaður Gana sem klúðraði þessari vítaspyrnu, ekki ég. Ég fékk rautt spjald. Ef ég hefði meitt leikmann þá bæðist ég afsökunar. Það var ekki mér að kenna að hann skoraði ekki úr vítinu," svaraði Suarez.

Þetta verður rosalegur leikur á morgun, klukkan 15:00.

Gana er öruggt með að komast áfram ef liðið vinnur Úrúgvæ. Gana kemst áfram með jafntefli ef Suður-Kórea vinnur ekki Portúgal.

Úrúgvæ verður að vinna og treysta á að Suður-Kórea vinni ekki Portúgal. Markatala ræður úrslitum ef Úrúgvæ og Suður-Kórea vinna bæði.


Athugasemdir
banner
banner
banner