Spænski miðvörðurinn Sergio Ramos mun yfirgefa Paris Saint-Germain í sumar en þetta staðfestir hann á Instagram.
Ramos gekk í raðir PSG á frjálsri sölu frá Real Madrid fyrir tveimur árum og gerði þá tveggja ára samning..
Á fyrsta tímabili hans var hann mikið frá vegna meiðsla en hefur verið lykilpartur af liðinu á þessari leiktíð.
Hann fór í samningaviðræður við franska félagið í síðasta mánuði en ekki náðist samkomulag og hefur hann nú staðfest að leikurinn á morgun verður hans síðasti fyrir PSG.
„Á morgun mun ég kveðja annan kafla í lífinu og það er þegar ég kveð PSG. Ég veit ekki nákvæmlega hvað það eru margir staðir í lífinu þar sem manni líður eins og heima hjá sér, en PSG og stuðningsmenn félagsins eru svo sannarlega einn af þessum stöðum. Takk fyrir tvö sérstök ár þar sem ég gat spilað í öllum keppnum og gefið allt mitt. Nú mun ég takast á við nýjar áskoranir og klæðast öðrum litum, en fyrst og síðast: Áfram París,“ sagði Ramos.
Ekki er ljóst hvert Ramos mun fara en það eru ansi mörg lið til að fá einn besta varnarmann allra tíma í sínar raðir.
Athugasemdir