Brunaútsala hjá Man Utd - Greenwood ætlar að hafna Barcelona - Chelsea reyndi að fá Nunez fyrir tímabilið
banner
   fös 03. febrúar 2023 16:25
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Landsliðið hugsaði öðruvísi en Lyon - „Hann hafði einhverja 30 leikfélaga"
Icelandair
Sara Björk og Ragnar Frank.
Sara Björk og Ragnar Frank.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sara Björk Gunnarsdóttir, leikjahæsta landsliðskona Íslandssögunnar, steig fram í síðasta mánuði og opinberaði slæma meðferð sem hún fékk frá franska stórliðinu Lyon á meðan hún var ólétt.

Lyon er með mjög sterka ímynd í kvennaboltanum og hefur verið rætt og skrifað um að umgjörðin í kringum liðið sé frábær.

En meðferðin sem Sara varð fyrir á meðan hún var ólétt var í raun til skammar.

„Hún hefur gert gríðarlega margt fyrir fótboltann, náð langt og verið fyrirmynd innan sem utan vallar," sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands, í samtali við Fótbolta.net er hann var spurður út í Söru Björk, sem er nýhætt með landsliðinu.

„Hún var í þessum slag fyrri part árs í fyrra. Hún var búin að segja mér þetta allt fyrir löngu síðan. Auðvitað hefur þetta verið erfitt fyrir hana. Á sama tíma var hún að berjast um að koma sér í stand fyrir EM. Það sýnir ákveðin eiginleika að takast á við hluti að geta verið að berjast fyrir réttlæti á sama tíma og þú ert að koma þér í form eftir barnsburð til þess að geta spilað á stærsta svæðinu."

„Hún sýnir hvers hún er megnug þar."

Sara lagði mikið á sig til þess að koma til baka eftir barnsburðinn. Hún kom inn á það í grein sinni að hún hefði ekki fengið leyfi til þess að taka son sinn, Ragnar Frank, með í útileiki því það var óttast að hann myndi trufla aðra leikmenn Lyon. Það var á þeim tímapunkti þar sem Sara var enn með hann á brjósti og gat því lítið verið frá honum.

Slíkt var aldrei vandamál í landsliðinu. „Aldrei, aldrei nokkurn tímann," sagði Steini.

„Hann var alltaf velkominn. Það var æðislegt að hafa hann. Hann hafði einhverja 30 leikfélaga og það var ekkert vandamál að hafa hann inn í okkar hóp. Þetta er partur af því að þjálfa konur og á ekki að vera neitt vandamál þó að barn sé inn í hópnum. Það er bara skemmtilegt, bara gaman fyrir hópinn að vera með eitthvað öðruvísi félagslegt."

„Hann var alltaf boðinn velkominn. Það er eitthvað plan innan sambandsins með þetta. Leikmenn ákveða sjálfir hvort að barn komi með eða ekki upp að ákveðnum aldri."

Hér fyrir neðan má sjá viðtalið við Steina þar sem hann ræðir meira um brotthvarf Söru úr landsliðinu og þau áhrif sem það mun hafa.

Sjá einnig:
„Það var í raun ekkert sem ég gat gert til að breyta því"
Sér ekki eftir fríinu í nóvember - Heimslistinn spilaði inn í
Athugasemdir
banner
banner
banner