Bergrós Ásgeirssdóttir hefur gengið til liðs við svissneska úrvalsdeildarliðsins FC Aarau frá Arezzo sem leikur í ítölsku B-deildinni. Bergrós er uppalin á Selfossi.
„Mér líst mjög vel á aðstæður hér í Sviss, bæði stelpurnar og þjálfarateymið og við erum spenntarfyrir því að hefja deildarkeppnina. Við eigum fyrsta leik 10. ágúst og höfum verið á fullu á undirbúningstímabilinu seinustu vikur,“ sagði Bergrós í samtali við sunnlenska.is.
Bergrós samdi við Arezzo á Ítalíu síðasta haust. Hún lék alls 17 leiki með liðinu í Serie-B í fyrra en hún varð fyrir því óláni að fara úr ökklalið snemma í apríl.
„Svo fékk ég þetta tækifæri í Sviss núna í sumar og ákvað að stökkva á það. Ég er komin svona 70% til baka eftir meiðslin en ég er mjög heppin með sjúkraþjálfun hérna í Sviss þannig að þetta er allt að koma til,“ bætti Bergrós svo við.
Það verður spennandi að fylgjast með henni stíga sín fyrstu skref í svissnesku úrvalsdeildinni.