Munu Man Utd og Liverpool berjast um Eze? - Pochettino tekur við Bandaríkjunum - Antony gæti verið lánaður til Tyrklands
   þri 03. september 2024 10:00
Brynjar Ingi Erluson
Moyes á blaði hjá Everton
David Moyes
David Moyes
Mynd: Getty Images
Skoski stjórinn David Moyes er orðaður við endurkomu til enska úrvalsdeildarfélagsins Everton í enska miðlinum Football Insider.

Everton-liðið hefur byrjað tímabilið skelfilega undir stjórn Sean Dyche og eru miðlarnir farnir að skrifa um að sæti hans sé afar heitt en Everton hefur tapað öllum þremur leikjum sínum á tímabilinu.

Liðið tapaði fyrsta leiknum gegn Brighton, 3-0, og síðan fylgdi á eftir 4-0 tap gegn Tottenham. Everton var á góðri leið með að ná í sinn fyrsta sigur gegn Bournemouth um helgina en það glutraði niður tveggja marka forystu á lokamínútunum og tapaði leiknum, 3-2.

Football Insider segir að Everton sé búið að setja saman lista af mögulegum þjálfurum sem gætu tekið við af Dyche, það er að segja ef stjórnendurnir sjá ekki bætingu á spilamennskunni, en Moyes er sagður á þeim lista.

Það þarf ekki að kynna stuðningsmenn Everton fyrir Moyes. Hann naut sín vel sem stjóri liðsins frá 2002 til 2013.

Everton-liðið hans Moyes hafnaði í 4. sæti tímabilið 2004-2005 og komst í forkeppni Meistaradeildarinnar og þá fór hann með það í úrslitaleik enska bikarsins árið 2009.

Moyes hætti með Everton árið 2013 og tók við af Sir Alex Ferguson hjá Manchester United.

Skotinn var síðast stjóri West Ham og vann meðal annars Sambandsdeild Evrópu með liðinu á síðasta ári en ákvað að yfirgefa félagið eftir að samningur hans rann út í sumar.
Athugasemdir
banner
banner