Líkt og flestum er kunnugt þá var Ruben Amorim rekinn sem stjóri Manchester United í morgun. Amorim var stjóri félagsins í fjórtán mánuði, en hann kom til liðsins frá Sporting í Portúgal og tók við af Erik ten Hag.
Gengi United undir stjórn Amorim var ekki gott, þar sem sigurhlutfallið var undir 40%. United situr í 6. sæti úrvalsdeildarinnar með 31 stig eftir 20 umferðir. Liðið endaði í 15. sæti deildarinnar á síðasta tímabili, sem er versti árangur liðsins frá stofnun ensku úrvalsdeildarinnar.
Við á Fótbolti.net leituðum til nokkurra íslenskra stuðningsmanna liðsins og fengum þeirra álit á brottrekstri Portúgalans. Eftirfarandi þrjár spurningar voru lagðar fyrir stuðningsmennina.
1) Hver eru þín viðbrögð við brottrekstri Amorim?
2) Hvers vegna gekk þetta samstarf ekki upp?
3) Hver á að taka við liðinu til frambúðar?
Gengi United undir stjórn Amorim var ekki gott, þar sem sigurhlutfallið var undir 40%. United situr í 6. sæti úrvalsdeildarinnar með 31 stig eftir 20 umferðir. Liðið endaði í 15. sæti deildarinnar á síðasta tímabili, sem er versti árangur liðsins frá stofnun ensku úrvalsdeildarinnar.
Við á Fótbolti.net leituðum til nokkurra íslenskra stuðningsmanna liðsins og fengum þeirra álit á brottrekstri Portúgalans. Eftirfarandi þrjár spurningar voru lagðar fyrir stuðningsmennina.
1) Hver eru þín viðbrögð við brottrekstri Amorim?
2) Hvers vegna gekk þetta samstarf ekki upp?
3) Hver á að taka við liðinu til frambúðar?
Kristján Óli Sigurðsson, Þungavigtin
1) Hárrétt ákvörðun og löngu tímabær. Hann var búinn að grafa sína eigin gröf og var kannski aldrei nægilega stór til þess að taka við þessu starfi.
2) Hann var ekki að spila United boltann. Þetta þriggja hafsenta kerfi var aldrei að virka og hann var þrjóskur. Hann var eiginlega gangandi lík en eflaust fínn drengur.
3) Hver á að taka við er frábær spurning. Það þarf að hugsa djúpt og vanda til verka. Það hafa sex varanlegir stjórar verið reknir á síðustu tólf árum. Það er erfitt að svara þessu, ég væri mest til í að fá Jurgen Klopp en það eru draumórar. Mögulega Solskjær - það væri allt í lagi, ekki gott.
Jóhann Skúli Jónsson, Draumaliðið
1) Úr því sem komið var þetta hárrétt ákvörðun. Þessi glórulausu og skrýtnu ummæli á blaðamannafundum síðustu tvær vikur hafa greinilega verið sneiðar og pillur og maður fattar bara ekki hvernig hann taldi sig hafa eitthvað 'aura' eða dagskrárvald til að taka þennan slag.
2) Amorim hafði meiri áhuga á því að sýna sitt kerfi og hafa rétt fyrir sér heldur en að vinna leiki.
3) Ég hef ekki hugmynd, veit aðallega hvað ég vil ekki. Ekki Oliver Glasner. Ég hef enga stórkostlega fordóma fyrir þriggja hafsenta kerfi en leikmannahópurinn býður alls ekki upp á það akkúrat núna. Ég vil ekkert hollenskt og helst sem minnsta tengingu við ítalska boltann.
Sigurður Hlöðversson, fyrrv. útvarpsmaður og framkvæmdastjóri Visitor
1) Ég var farinn að taka Amorim í sátt, mér fannst við loksins vera farnir að færast í rétta átt þó vissulega hefði mátt betur ganga. Núna þegar ég hugsa þetta betur held ég að þetta sé góð ákvörðun en ég á eftir að sjá hvaða skemmtiatriði við stuðningsmenn fáum frá eigendum og stjórnendum félagsins ?.
2) Það var greinilega komin pressa á árangur, leikkerfi, leikmannakaup ofl. Einhverjir gaurar í jakkafötum sem varla kunna laxveiði farnir að rífa kjaft. Amorim var greinilega aldrei með fullt traust eða full völd frá degi eitt.
3) Ég vil fá nafn sem er með reynslu í að stýra stórum klúbb, með breitt bak og getur tæklað allt þetta baktjaldamakk sem þarf að takast á við. Ekki fara að finna einhvern sem hefur verið með lið í Portúgal eða Noregi. Þá geta þeir alveg eins ráðið mig í vinnu. Við viljum stórt nafn, við viljum árangur – strax!
Orri Freyr Rúnarsson (Orri á X-inu)
1) Fyrstu viðbrögð eru í raun bara léttir. Ég var reyndar smá hissa að þetta hafi gerst svona strax eftir Leeds leikinn, en síðustu blaðamannafundir hafa gefið tóninn að þetta samstarf var komið á algjöran endapunkt.
2) Ég var nokkuð spenntur þegar Amorim tók við og mín heitasta ósk var að þarna væri kominn þjálfari sem fengi smá tíma til að þróa sinn stíl og fá þá leikmenn sem hentuðu honum. Það varð snemma ljóst að þetta leikkerfi hans hentaði hvorki hópnum né deildinni.
Góðir þjálfarar laga sig að aðstæðum, en Amorim gerði það aldrei. Hann virtist hafa þráhyggju fyrir kerfinu sínu og gaf enga afslætti. Þrátt fyrir heilt undirbúningstímabil og fínan leikmannaglugga voru leikmenn ennþá óöruggir að spila kerfið hans. Varnarmenn vissu ekki hvenær þeir ættu að stíga upp, engar miðjusamsetningar virtust virka og hann beit það algjörlega í sig að Kobbie Mainoo ætti ekkert erindi í liðið.
Hann virtist líka algjörlega ófær um að bregðast við hvernig önnur lið spiluðu. Maður sér þjálfara ítrekað breyta kerfum og leikstíl til að “matcha” andstæðinga í miðjum leik, það gerði hann aldrei og allar skiptingar stórundarlegar.
Endalaus ummæli um að hópurinn væri ekki nógu góður og leikmenn gætu aldrei spilað hans kerfi hafa eflaust ekki hjálpað til. Þegar stuðningsmenn vildu að ungir uppaldir leikmenn fengu fleiri mínútur var þeim svarað með undarlegum ummælum um nokkra af þeim leikmönnum.
Þegar hann var svo augljóslega kominn í stapp við stjórnina og Jason Wilcox undir lokin var einfaldlega komið að endastöð hjá honum.
3) Ég vil helst fá þjálfara sem hefur unnið allt og kann þetta upp á 10. Einhvern sem getur drillað einföld kerfi en treystir svo á einstaklingsæði leikmanna og reynir ekki að breyta þeim í vélmenni.
En ætli þeir taki ekki einhvern “spennandi” kost sem ræður svo ekkert við starfið og verður farinn í desember.
Athugasemdir



