Með hverjum deginum styttist í Bestu deildina og hafa liðin verið dugleg á félagaskiptamarkaðnum. Við hjá Fótbolta.net tókum saman lista yfir þá tíu leikmenn sem eru að okkar mati mest spennandi kaup deildarinnar.
10. sæti - Diego Montiel, KA - Færir sig frá bikarmeisturunum og er genginn til liðs við KA. Þessi sóknarsinnaði miðjumaður kom að tíu mörkum á liðnu tímabili með Vestra og mun að öllum líkindum reynast KA-mönnum vel.
9. sæti - Atli Sigurjónsson, Þór - Atli er að loka hringnum og er mættur aftur heim í þorpið. Verður að öllum líkindum í stærra hlutverki en hann hefur verið hjá KR síðustu ár. Þá gerir liðsfélagi hans Ágúst Hlynsson einnig tilkall á listann en við látum einn Þórsara nægja.
8. sæti - Dagur Orri Garðarsson Fer úr Kórnum og á Hlíðarenda líkt og þjálfarinn Hermann Hreiðarsson. Fyrri hluta tímabils kveikti hann í Lengjudeildinni en það sem leið á tímabilið fór aðeins að dala. Dagur þarf að aðlagast efstu deild hratt, því það verður eflaust mikið reitt á hann í fjarveru Patrick Pedersen sem verður frá fyrstu mánuði tímabilsins..
7. sæti - Jökull Andrésson, FH - Eftir vonbrigðartímabil með Mosfellingum færir hann sig um set og fer í Hafnarfjörðinn. Markvarðarstaða FH-inga hefur verið vandamál undanfarin ár og er spurning hvort að tilkoma Jökuls leysi það vandamál til frambúðar.
6. sæti - Kári Kristjánsson, FH - Kári gengur til liðs við FH-inga eftir að hafa verið lykilmaður í spennandi liði Þróttara í Lengjudeildinni. Það verður spennandi að sjá hann spila í efstu deild eftir að hafa verið einn besti leikmaður Lengjudeildarinnar síðustu ár.
5. sæti - Jónatan Guðni Arnarsson, Breiðablik - Kom lítið við sögu hjá Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni á liðnu tímabili, en kom þó engu að síður við sögu. Hann er fæddur árið 2007 og verður spennandi að sjá hvernig hann mun spreyta sig með Blikum í sumar.
4. sæti - Birnir Snær Ingason, Stjarnan - Gengur til liðs við Stjörnuna eftir að hafa verið hjá KA seinni síðasta tímabils. Var frábær með KA í sumar og mun eflaust reynast Stjörnumönnum gífurlegur liðsstyrkur. Hefði hæglega getað verið hærra skrifaður á listanum en það er vitað hvers konar hæfileikum hann er gæddur og því verður hann að sætta sig við fjórða sætið.
3. sæti - Gísli Eyjólfsson, ÍA - Kemur aftur heim eftir stutta dvöl úti í Svíþjóð. Var einn besti leikmaður deildarinnar með Breiðabliki áður en hann hélt út. Áhugavert að hann skuli ákveðið að fara upp á Skipaskaga sem gerir skiptin enn áhugaverðari.
2. sæti - Arnór Ingvi Traustason, KR - Arnór kemur heim eftir langa dvöl úti í atvinnumennsku. Hefði getað farið í öll lið í Bestu deildinni en ákvað að fara í Vesturbæinn. Hversu langt getur hann híft KR-inga upp?
1. sæti - Elías Már Ómarsson, Víkingur R. - Mest spennandi félagaskipti Bestu deildarinnar hingað til eru vistaskipti Elíasar frá Kína og yfir í Víkina. Það hafa fáir séð til hans síðastliðin áratug þar sem hann hefur verið úti í atvinnumennsku en lítið komið við sögu í landsliðinu. Það verður áhugavert að sjá hvernig honum mun vegna sem framherji Íslandsmeistarana.
Athugasemdir



