Arsenal styrkti stöðu sína á toppi deildarinnar og Úlfarnir sóttu sinn fyrsta sigur. Troy Deeney, sérfræðingur BBC, hefur valið lið umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni.
Markvörður: Emiliano Martinez (Aston Villa) - Þrátt fyrir að Villa hafi unnið Forest nokkuð þægilega þurfti Argentínumaðurinn að hafa fyrir hlutunum. Hann varði vel frá Morgan Gibbs-White skömmu eftir að Forest höfðu minnkað muninn.
Varnarmaður: Ben Davies (Tottenham) - Fæstir áttu von á að þessi maður myndi vera valinn í lið vikunnar, aðeins þriðji byrjunarliðsleikur hans á tímabilinu. Þetta sýnir að þú þarft ekki að vera 37 ára til þess að verða afskrifaður, því Davies er 32 ára og hefur þegar verið afskrifaður. En hann gerði vel og skoraði eina mark Tottenham manna í jafntefli gegn Sunderland.
Varnarmaður: Nathan Collins (Brentford): - Skoraði og lagði upp í góðum sigri Brentford á Everton. Nýtur sín vel undir stjórn Keith Andrews. Gleymið Jordan Henderson, Collins er leiðtogi liðsins.
Varnarmaður: Malick Thiaw (Newcastle) - Hefur verið stórkostlegur síðustu misseri. Með góðum frammistöðum hækkar sjálfstraustið og er hann búinn að stimpla sig rækilega inn í Newcastle liðið. Skoraði gott mark sem hjálpar alltaf í vali á liði vikunnar.
Varnarmaður: Matty Cash (Aston Villa) - Cash var frábær í sigrinum gegn Forest og hefur verið frábær undanfarnar vikur. Gríðarleg ógn sem stafar af honum úr hægri bakverði og hann átti góða stoðsendingu í öðru marki Villa.
Miðjumaður: Declan Rice (Arsenal) - Orð eru óþörf. Tvö mörk, leiðtogi og framtíðarfyrirliði enska landsliðsins.
Miðjumaður: Mateus Mane (Wolves) - Fyrsti sigur Úlfanna kominn í hús og sá var kærkominn. Mane skoraði þriðja mark liðsins og innsiglaði sigurinn. Hann er aðeins átján ára gamall, þetta var hans þriðji byrjunarliðsleikur og hann stóð sig með mikilli prýði.
Miðjumaður: John McGinn (Aston Villa) - Sjálfkjörinn í þetta lið. Skoraði tvö góð mörk og gerði vel í seinna markinu þrátt fyrir galið úthlaup John Victor, markvarðar Forest.
Miðjumaður: Tijjani Reijnders (Manchester City) - Skoraði eina mark City í jafnteflinu gen stjóralausum Chelsea. Var frábær þar til honum var skipt af velli og hefur nú skorað þrjú mörk í síðustu fjórum leikjum.
Sóknarmaður: Igor Thiago (Brentford) - Gjöfin sem heldur áfram að gefa. Eflaust margir sem héldu að hann væri blaðra sem ætti eftir að springa en hann hættir ekki að skora. Þrenna gegn Everton nú um helgina og er þegar kominn með fjórtán mörk í deildinni.
Sóknarmaður: Cody Gakpo (Liverpool) - Steig upp í fjarveru Isak og Ekitike en því miður fyrir Liverpool menn dugði það ekki til.
Stjórinn: Rob Edwards (Wolves) - Fyrsti sigur Úlfanna í sex stiga leik gegn West Ham. Loksins getur liðið byggt upp frá jákvæðri frammistöðu. Gæti þetta verið upphafið af einhverju mögnuðu?
Athugasemdir



