fim 04. mars 2021 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Pressan mikil á að þeir geri eitthvað í sumar"
Lengjudeildin
Úr leik hjá Vestra síðasta sumar.
Úr leik hjá Vestra síðasta sumar.
Mynd: Haukur Gunnarsson
Samúel Samúelsson, formaður Vestra, og Heiðar Birnir Torleifsson.
Samúel Samúelsson, formaður Vestra, og Heiðar Birnir Torleifsson.
Mynd: Vestri
Vestri er með stór markmið fyrir sumarið sem framundan er. Stefnan er sett á að komast upp í Pepsi Max-deildina.

Liðinu var spáð fimmta sæti í ótímabæru spánni fyrir Lengjudeild karla sem var opinberuð í útvarpsþættinum Fótbolta.net um síðastliðna helgi.

Vestri hefur bætt við sig nokkrum erlendum leikmönnum með öfluga ferilskrá, þar á meðal Nicolaj Madsen sem á yfir 100 úrvalsdeildarleiki í Danmörku.

Bjarni Jóhannsson verður hins vegar ekki áfram þjálfari liðsins. Hann tók við Njarðvík og var Heiðar Birnir Torleifsson, sem var aðstoðarþjálfari Bjarna, ráðinn í hans stað. Heiðar er einnig fyrrum þjálfari B71 í Færeyjum.

„Þjálfararáðningin er óvænt," sagði Tómas Þór Þórðarson í útvarpsþættinum. „Algjörlega óskrifað blað. Fannst þér þetta ekki skrýtin ráðning í ljósi þess hver var að fara og hvað sé búið að setja í liðið?" spurði Tómas.

Rafn Markús Vilbergsson, fyrrum þjálfari Njarðvíkur, svaraði þá: „Menn verða alltaf að fá tækifæri. Þarna ertu með heimamann sem brennur fyrir fótbolta, er með mikinn áhuga á því sem hann er að gera og er snjall í því sem hann gerir... þeir reyndu við ýmsa þjálfara og stór nöfn sem við þekkjum að sunnan. Hann er ráðinn á endanum og það verður að koma í ljós hvað gerist. Það verður flókið fyrir hann að lenda í þeirri stöðu að fara að tapa mörgum leikjum í byrjun, flókið fyrir stjórnina og allt í kringum þetta."

Erlendu leikmennirnir eru að koma inn núna á næstunni og þá fer að koma góð mynd á liðið.

„Númer eitt, tvö og þrjú er það bara geggjað hvað þeir eru að setja í þetta og hvað það er mikill metnaður," sagði Tómas.

„Sammi og félagar eru örugglega ekki sáttir við fimmta sætið," sagði Rafn Markús og bætti við: „Pressan verður mikil á að gera eitthvað í sumar."
Útvarpsþátturinn - Ótímabær Lengjuspá og Alexander Scholz
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner