þri 04. ágúst 2020 06:00
Brynjar Ingi Erluson
Conte brjálaður yfir blaðagrein Repubblica - „Ég ætla að kæra"
Antonio Conte
Antonio Conte
Mynd: Getty Images
Antonio Conte, þjálfari Inter á Ítalíu, íhugar nú að hefja málsókn gegn ítalska blaðinu La Repubblica eftir að blaðið greindi frá því að hann hefði beðið þjálfarateymi og leikmenn Juventus um að láta reka Maurizio Sarri.

Conte hefur gert góða hluti með Inter frá því hann tók við liðinu á síðasta ári en lið hans endaði í 2. sæti ítölsku deildarinnar, aðeins stigi á eftir Juventus.

La Repubblica greindi frá því að Conte hefði rætt við þjálfarateymi Juventus og leikmenn liðsins og hann hafi beðið þá um að segja stjórn félagsins að reka Maurizio Sarri.

„Ég neita því að hafa rætt við þjálfarateymið hjá Juventus og leikmenn liðsins, þar sem ég átti að hafa beðið þá um að láta reka Maurizio Sarri," sagði Conte.

„Ég mun kæra þann sem skrifaði þessa grein og ritstjóra blaðsins. Ég skrifaði undir þriggja ára samning hjá Inter og er skuldbundinn því verkefni. Ég mun halda áfram að berjast með Inter til þess að ná árangri með félagið," sagði Conte ennfremur.
Athugasemdir
banner