Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   mið 04. ágúst 2021 06:00
Brynjar Ingi Erluson
Dómarinn um Eriksen: Kjær og bráðaliðarnir voru hetjurnar
Anthony Taylor brást rétt við í leik Danmerkur og Finnlands
Anthony Taylor brást rétt við í leik Danmerkur og Finnlands
Mynd: EPA
Danska liðið sýndi ótrúlega liðsheild í leiknum og öllu mótinu
Danska liðið sýndi ótrúlega liðsheild í leiknum og öllu mótinu
Mynd: EPA
Simon Kjær og Christian Eriksen eru góðir félagar
Simon Kjær og Christian Eriksen eru góðir félagar
Mynd: Getty Images
Enski dómarinn Anthony Taylor ræddi við BBC um þann örlagaríka dag er hann dæmdi leik Danmerkur og Finnlands á Evrópumótinu í sumar þar sem Christian Eriksen fékk hjartaáfall og ekki var vitað hvort hann myndi lifa af.

Sjö vikur eru síðan atvikið átti sér stað. Danir áttu innkast og var Eriksen að gera sig kláran í að taka við boltanum en eitthvað var ekki með felldu og féll hann til jarðar á Parken.

Áhorfendur og leikmenn voru skelfingu lostnir yfir þessu. Simon Kjær, fyrirliði danska liðsins, var fyrstur að Eriksen, kom honum í læsta hliðarlegu og kom í veg fyrir að góður liðsfélagi og betri vinur, myndi gleypa tungu sína.

Bráðaliðar mættu á svæðið með hjartastuðstæki og eftir dágóðan tíma tókst að hnoða í hann líf. Hann var fluttur í flýti á spítala í grenndinni og var hann útskrifaður rúmlega viku eftir atvikið.

„Ég vissi það um leið og þetta gerðist. Christian var einn og það eina sem var nálægt honum var skoppandi bolti sem fór í hnéð á honum. Ég horfði beint á hann þegar hann datt og sá andlitið á honum þegar þetta gerðist. Ég vissi að það var eitthvað að," sagði Anthony Taylor.

„Ég á fyrst og fremst að hugsa um öryggi leikmanna. Ef leikmaður er meiddur eða ekki í lagi, þá þurfa þeir aðstoð frá bráðaliðum. Það eina sem ég gerði er að kalla á lækni og ég áttaði mig í raun ekkert á hlutunum fyrr en síðar um daginn þegar ég var að ferðast með hinum dómaranum aftur til Istanbul. Alvöru hetjurnar þennan daginn voru Simon Kjær og bráðaliðarnir."

„Ég hafði upplifað svona atvik áður, ekki bara í ensku úrvalsdeildinni heldur líka frá fyrra starfi í fangelsi. Ég þurfti auðvitað að hugsa um aðstoðarmenn mína og fjórða dómarann en á þessum tíma þegar við fórum með leikmennina inn í klefa þá var ég ekki með þeim. Þeir voru í búningsklefanum og ég var í öðru herbergi með fulltrúum frá UEFA og liðunum."

„Við höfðum ákveðið að fresta leiknum þangað til vissum stöðuna á Christian. Það eru upplýsingarnar sem við þurftum að vita áður en við gátum tekið ákvörðun um leikinn. Ég gat ekki talað við hina dómarana fyrr en ég fór aftur í búningsklefann eftir einhvern tíma og þá þurfti ég að vita hvernig þeim leið og ákveða hvort við gátum haldið leik áfram."


Mikilvægt að hafa hjartastuðstæki á völlunum

Taylor hefur ekki sjálfur talað við Eriksen eftir áfallið en hann sendi honum þó skilaboð.

„Ég hef ekki persónulega rætt við hann. Ég sendi honum skilaboð nokkrum dögum eftir atvikið. Ég talaði við Kasper Schmeichel, markvörð danska liðsins, áður en við fórum af vellinum eftir leikinn. Dönsku leikmennirnir höfðu talað við Christian á FaceTime og þá var hann á spítalanum. Kasper kom og talaði við mig og við ræddum aðeins um stöðuna á Christian."

Dómarinn telur það afar mikilvægt að vera með hjartastuðstæki á völlunum.

„Já, því það skiptir ekki máli hversu góðu formi við erum í eða hversu ung eða gömul við teljum okkur vera, því þetta getur gerst fyrir hvern sem er á hvaða tímapunkti sem er. Það undirstrikar bara hversu mikilvægt það er að vera með þessi tæki á öllum stöðum og fólk verður að skilja af hverju við þurfum þau og hvernig á að notast við þessi tæki," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner