Haaland verður með riftunarákvæði - Real Madrid ætlar að fá Saliba - Antony til Newcastle?
banner
   mið 04. september 2024 11:20
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Á leið í bikarúrslit með heitasta framherja landsins - „Átti ekki von á honum svona sterkum aftur"
Fer ekki inn á völlinn án þess að skora þessa dagana.
Fer ekki inn á völlinn án þess að skora þessa dagana.
Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson
Í fjórum síðustu leikjum sínum hefur Viðar Örn Kjartansson skorað fimm mörk. Hann skoraði fyrsta markið sitt fyrir KA gegn KR á útivelli, hann fylgdi á eftir því með marki gegn Val á heimavelli en varð fyrir því óláni að meiðast í þeim leik.

Hann tók ekki þátt í leikjum gegn Fylki og Stjörnunni en sneri svo til baka og skoraði gegn Fram á útivelli og nú síðast tvö mörk gegn Breiðabliki á heimavelli.

Viðar samdi mjög óvænt við KA skömmu fyrir mót og var lengi í gang. Hann hefur sjálfur viðurkennt að hann glímdi við meiðsli og hefði ekki átt að spila fótbolta á þeim tímapunkti.

Viðar hefur á sínum ferli verið öflugri þegar hann finnur fyrir miklu trausti, fær að byrja leikina, þá gengur honum mun betur að skora. Eftir landsleikjahléið í júní var standið orðið þannig að hann gat farið að byrja leiki og í fimmta byrjunarliðsleiknum brast stíflan.

Lestu um leikinn: KA 2 -  3 Breiðablik

„Þetta er bara sjálfstraust, betra form, meiðslafrír. Í byrjun var ég bara meiddur, ekki í neinu standi og náði ekki undirbúningstímabili. Það tók mig tíma að koma mér í form, svo er ég að koma í nýtt lið líka. Byrjunin var ekki frábær, en þegar ég skoraði fyrsta markið þá vissi ég hvað myndi gerast í framhaldinu," sagði Viðar eftir leikinn gegn Breiðabliki.

KA var á miklu skriði í Bestu deildinni, liðið var búið að spila tíu deildarleiki án þess að tapa áður en Blikar komu í heimsókn. Rætt var um Viðar í Innkastinu þar sem 21. umferð deildarinnar var gerð upp.

„Þegar þeir fara í bikarúrslitaleikinn (22. september) þá stefnir í að þeir verði með einn allra allra heitasta sóknarmann Íslands í sínum röð. Viðar Örn Kjartansson, sá er búinn að vera heitur. Maður er hættur að heyra einhverjar kjaftasögur, nú er hann bara í fréttum fyrir að vera skora mörk," sagði Elvar Geir.

„Ég skal viðurkenna að það kemur mér svolítið á óvart hvað hann varð heitur aftur og það kætir mig. Þetta mark þar sem hann tekur boltann aftur fyrir sig einhvern veginn, það var rosalega flott og vel gert. Ég átti ekki von á honum svona sterkum aftur," sagði Valur Gunnarsson.

„Þú sérð ekki marga í þessari deild slútta svona," skaut Elvar Geir inn í.

„Hann er líka farinn að brosa inn á vellinum, það er gaman að sjá. Ógeðslega vel gert hjá honum að koma til baka og skora þessi mörk," sagði Guðmundur Aðalsteinn.

„Gæinn er 34 ára, ég hélt að hann væri kannski búinn. Þetta er fljótt að fara þegar menn komast á ákveðinn aldur," sagði Valur. Mörkin úr leiknum má sjá hér að neðan.

Í Innkastinu hér neðst er einnig farið yfir tímabilið hjá KA sem verður annað árið í röð í neðri hluta deildarinnar, það varð ljóst eftir tapið gegn Breiðabliki. KA mætir Víkingi í bikarúrslitaleiknum annað árið í röð.


Innkastið - Víkingur vann veika Valsmenn og spjót beinast að Túfa
Athugasemdir
banner
banner