Daði Berg Jónsson, leikmaður Víkings, segir í samtali við Fótbolta.net að hann búist ekki við því að snúa aftur á tímabilinu vegna meiðsla kviðmeiðsla.
Leikmaðurinn ungi var á láni hjá Vestra fyrri hluta tímabils þar sem hann sló í gegn, en var kallaður til baka til Víkings og á enn eftir að spila leik fyrir Víking á þessu tímabili.
Aðspurður hvort að hann haldi að tímabilið sé í hættu svarar Daði játandi.
„Það lítur allt út fyrir það, ég þarf að sjá hvernig næstu dagar þróast. Það er mjög svekkjandi að vera kallaður til baka, en vera svo bara meiddur. Sérstaklega hvernig fyrri hluti tímabils þróaðist hjá manni persónulega.“
Hann lýsir meiðslunum sem íþróttakviðslitum, þar sem kviðurinn sé ekki slitinn heldur bólgur í kring og rifa í vöðvanum.
Daði fór til sérhæfðs læknis í Manchester í síðasta mánuði en hann vildi ekki skera hann upp sökum ungs aldurs Daða. Hann fer nú til Danmerkur á föstudaginn að hitta annan lækni.
„Það er sá sami og skar upp Aron Elís og Tarik Ibrahimagic, ég veit ekki hvort að hann vilji skera mig upp en vonandi getur hann komist til botns í þessu máli, maður verður að fara spila eitthvað.“
Daði segir fyrst hafa fundið fyrir meiðslunum í leik gegn KR þann 1. júní. Hann kláraði leikinn en fljótlega fundið fyrir meiðslunum aftur í U19 verkefni, en spilaði þó.
„Svo kem ég aftur heim og spila gegn KA ekki alveg 100 prósent, og eftir leik gat ég varla gengið, bara að drepast.“
Því næst hafi hann spilað tæpur gegn ÍA tveimur vikum síðar og aftur gegn Fram í undanúrslitum Mjólkurbikarsins í byrjun ágúst.
„Ég ætlaði bara að hvíla eftir Fram-leikinn og hélt að ég væri góður. En það var ekki staðan og ég hef ekki æft síðan.“
„Ég fór í sprautu fyrir tveimur vikum síðan og prufaði að æfa eitthvað eftir það, en það var bara sama gamla vesenið. Ég er alltaf bara í hakki eftir að hafa æft.“
Athugasemdir