Man Utd gerði ekki tilboð í Martínez - Martínez hefur ekki áhuga á að fara til Tyrklands - Bayern vildi Lookman
   þri 02. september 2025 16:00
Elvar Geir Magnússon
Isak: Verð Newcastle ævinlega þakklátur
Alexander Isak.
Alexander Isak.
Mynd: EPA
Alexander Isak segir að það hafi verið heiður að spila fyrir Newcastle og þakkar stuðningsmönnum í kveðjupósti eftir að hafa gengið í raðir Liverpool.

Sænski sóknarmaðurinn fór til Liverpool á gluggadeginum fyrir 125 milljónir punda eftir atburðarás sem minnti á sápuóperu. Í sumar gaf hann það út að hann vildi yfirgefa Newcastle og hefur ekki spilað fyrir liðið síðan.

„Ég vil þakka liðsfélögum mínum, starfsliðinu og umfram allt borginni og stuðningsmönnum fyrir þrjú ógleymanleg ár saman," segir Isak í pósti á Instagram.

„Saman höfum við skrifað söguna og komið félaginu aftur á þann stall sem það tilheyrir. Það hefur verið heiður að taka þátt í þessu ferðalagi, komast í Meistaradeildina og vinna fyrsta titilinn í yfir 70 ár. Ég verð ævinlega þakklátur. Takk Newcastle."

Isak gekk í raðir Newcastle fyrir 60 milljónir punda frá Real Sociedad á Spáni 2022 og skoraði 27 mörk í 42 leikjum í öllum keppnum á síðasta tímabili. Hann vann deildabikarinn með Newcastle í mars.
Athugasemdir
banner