þri 04. desember 2018 23:10
Ívan Guðjón Baldursson
Warnock: Skil ekki hvernig við töpuðum
Mynd: Getty Images
Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn er Cardiff tapaði 3-1 fyrir West Ham í ensku úrvalsdeildinni fyrr í kvöld.

Neil Warnock, stjóri Cardiff, taldi sína menn eiga góðan leik og skilur ekkert í því hvernig leikurinn hafi tapast.

Cardiff fékk vítaspyrnu í fyrri hálfleik en Joe Ralls lét Lukasz Fabianski verja frá sér. Hamrarnir skoruðu svo þrjú mörk á tæpum stundarfjórðungi í upphafi síðari hálfleiks og gerðu út um leikinn.

„Ég skil ekki hvernig við töpuðum þessum leik, hvað þá 3-1! Ég kallaði á Manuel (Pellegrini, stjóra West Ham) og spurði hann hvort hann vissi hvernig í ósköpunum mitt lið væri að tapa 3-0," sagði Warnock.

„Hann hafði engin svör. Þetta var ótrúlegt. Við verðum að skora úr vítaspyrnum. Ralls var vítaskyttan í fyrra, Camarasa mun taka næsta víti."

Warnock telur einstaklingsmistök og skort á einbeitingu hafa kostað sína menn stig í dag.

„Við erum að fá alltof auðveld mörk á okkur. Við verðum að laga varnarleikinn, við verðum að hætta að gera kjánaleg mistök. Öll mörkin í dag komu eftir mistök.

„Ég var ánægðari með frammistöðuna heldur en gegn Everton. Ég get ekki kvartað undan vinnuframlagi frá strákunum, við erum ekki með nógu breiðan hóp. Okkur vantar tvo eða þrjá leikmenn ef við ætlum að halda okkur í úrvalsdeildinni."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner