Sverrir Ingi Ingason var á sínum stað í hjarta varnarinnar hjá FC Midtjylland sem tók á móti Viborg í efstu deild danska boltans í dag.
Mið-Jótlendingar gátu komist á topp deildarinnar með sigri en lentu óvænt undir eftir hálftímaleik og héldu gestirnir forystunni allt þar til seint í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Það var miklu bætt við og tókst heimamönnum að skora tvö mörk í uppbótartímanum til að snúa stöðunni við fyrir seinni hálfleikinn.
Flóðgáttirnar voru opnar eftir þetta og bætti Midtjylland þremur mörkum við í seinni hálfleik, þar sem Cho Gue-sung skoraði tvennu á meðan fyrirliðinn Henrik Dalsgaard skoraði og lagði upp.
Þetta var sjötti sigurinn í röð hjá Midtjylland og er liðið með tveggja stiga forystu á toppi ofurdeildarinnar, með 36 stig eftir 17 umferðir.
Elías Rafn Ólafsson varði þá mark Mafra í B-deild portúgalska boltans, en fyrri hálfleikurinn var afar slæmur.
Mafra heimsótti Feirense og lenti þremur mörkum undir í fyrri hálfleik, þar sem heimamenn skoruðu úr öllum marktilraunum sínum.
Mafra var sterkari aðilinn í síðari hálfleik og náði að minnka muninn niður í eitt mark en það dugði ekki til. Lokatölur urðu 3-2 og er Mafra með 17 stig eftir 12 umferðir, átta stigum frá baráttu um sæti í efstu deild.
Að lokum vann NAC Breda góðan sigur á varaliði PSV í B-deild hollenska boltans, en Elías Már Ómarsson er fjarverandi vegna slæmra meiðsla. Breda er í umspilsbaráttunni og er markmiðið sett á að komast upp í efstu delid.
Midtjylland 5 - 1 Viborg
Feirense 3 - 2 Mafra
Jong PSV 0 - 3 NAC Breda
Athugasemdir