Það komu fjórir Íslendingar við sögu í þremur leikjum sænska boltans í dag. Valgeir Lunddal Friðriksson lék allan leikinn í liði Hacken sem sigraði Oskar Tor Sverrisson og félaga í Varberg á útivelli. Valgeir lét ljós sitt skína og var meðal bestu leikmanna vallarins.
Hacken spilaði stærsta hluta leiksins leikmanni færri en vann þrátt fyrir það flottan 0-2 sigur. Óskari Tor var skipt inn í hálfleik í stöðunni 0-1 en honum tókst ekki að breyta gangi mála.
Hacken er í þriðja sæti eftir sigurinn, með 25 stig eftir 12 umferðir. Varberg er á botninum með fimm stig og er enn án sigurs.
Hinn 17 ára gamli Daníel Tristan Guðjohnsen fékk þá að spila síðustu mínúturnar í stórsigri Malmö gegn Degerfors. Malmö vann leikinn 5-0 og trónir á toppi deildarinnar með 28 stig eftir 11 umferðir. Daníel var skipt inn í stöðunni 5-0. Þetta voru hans fyrstu mínútur í keppnisleik í fullorðinsbolta.
Að lokum lék Böðvar Böðvarsson allan leikinn í 1-0 sigri Trelleborg gegn Brage í B-deildinni. Trelleborg er þar með 16 stig eftir 11 umferðir.
Varberg 0 - 2 Häcken
Malmö 5 - 0 Degerfors
Trelleborg 1 - 0 Brage