Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   mán 05. júní 2023 18:06
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Svo stendur Sölvi og öskrar á mig og ég svara honum til baka"
Orðaskipti milli Sölva og Óskars.
Orðaskipti milli Sölva og Óskars.
Mynd: Fótbolti.net
Sölvi fékk rautt spjald.
Sölvi fékk rautt spjald.
Mynd: Fótbolti.net
Lætin eftir leik.
Lætin eftir leik.
Mynd: Fótbolti.net
Úr leiknum.
Úr leiknum.
Mynd: Fótbolti.net
Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, fór í áhugavert viðtal eftir leik.
Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, fór í áhugavert viðtal eftir leik.
Mynd: Fótbolti.net
Víkingar misstu frá sér 2-0 forskot í uppbótartímanum.
Víkingar misstu frá sér 2-0 forskot í uppbótartímanum.
Mynd: Fótbolti.net
Eins og margoft hefur komið fram þá var hiti eftir leik Breiðabliks og Víkings í Bestu deildinni síðastliðið föstudagskvöld.

Víkingur var 0-2 yfir lengi vel en Breiðablik kom til baka með því að skora tvisvar í uppbótartímanum. Í kjölfarið voru mikil læti á milli liðanna.

Sölvi Geir Ottesen, aðstoðarmaður Arnars Gunnlaugssonar hjá Víkingi, fékk að líta rauða spjaldið fyrir hegðun sína á hliðarlínunni en hann og Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, áttu í orðaskiptum á hliðarlínunni. Svo fékk Logi Tómasson, bakvörður Víkinga, líka að líta rauða spjaldið fyrir að ýta Halldóri Árnasyni, aðstoðarþjálfara Breiðabliks.

Óskar Hrafn var í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolta.net þar sem hann var spurður út í lætin sem urðu á hliðarlínunni. Meðal annars var hann spurður út í samskipti sín við Sölva. Hann segir að það séu meiri og sterkari tilfinningar í leikjum gegn Víkingi en gegn öðrum liðum, en þessi tvö lið hafa verið að berjast um titlana á síðustu árum.

„Það er mikið skap á bekkjum þessara liða," sagði Óskar. „Í gær voru Víkingar töluvert grimmari en við í fyrri hálfleik. Svo veit ég það ekki. Umræðan um þessi tvö lið og þá ferðu að búa til einhverja mynd af andstæðingi og keppinauti, og ummæli sem falla sem ýta undir einhvern pirring. Það er mjög auðvelt að mótívera leikmenn fyrir leik á móti Víkingi."

„Þú þarft ekki brjálæðislega langa sögu eða 700 titla svo að það verði til rígur, kannski verður það til á einu kvöldi og svo heldur það áfram því leikirnir eru alltaf svo mikilvægir... svo verður þetta snjóbolti eða snjóflóð. Það eru gríðarlegar tilfinningar í kringum þessara og leiki og þær eru sterkari en fyrir aðra leiki."

Láta það í ljós á mjög svo skýran hátt
Hver var aðdragandinn að öllum látunum á föstudagskvöld? „Aðdragandinn er sá að þegar Klæmint jafnar þá verða þeir mjög reiðir og telja að dómarinn hafi farið fram yfir uppgefinn uppbótartíma. Þeir láta það í ljós á mjög svo skýran hátt„" segir Óskar og hélt svo áfram.

„Ég var staddur þarna fyrir tilviljun og ákvað að vippa mér inn í samræðurnar, sennilega óboðinn. Svo stendur Sölvi og öskrar á mig og ég svara honum til baka, eða spyr hann nokkurra spurninga bara svona á léttu nótunum. Það verður að því að hann fær rautt sem er bara sennilega eðlilegt. En þetta var alls ekkert eitthvað planað," sagði Óskar.

„Sölvi er skapmikill maður og keppnismaður. Þetta er erfitt fyrir Víkingana, að horfa fram á að vera með átta stiga forskot og ein lyftuferð hjá Halla framkvæmdastjóra og hún (forystan) er horfin. Ég átta mig á því; þú ferð úr himnaríki í helvíti á engum tíma. Það býr til tilfinningar, en svo er bara spurning hversu langt menn eiga að ganga. Hvar eigum við að stoppa?"

Óskar sagði eftir leik að Víkingar hefðu hagað sér eins og fávitar á hliðarlínunni allan leikinn, og það væri ekki að gerast í fyrsta sinn.

„Ég tek bara ábyrgð á þeim orðum og hefði sennilega getað orðað það penar. Þetta var ekkert pent í þessu augnabliki og það var allt í hæsta stigi, einhvern veginn í hæsta stigi á sterum, allt saman. Öll umræðan eftir leik og það sem kom út úr öllum. Ég hafði bara mína skoðun á þessu og fór ekki leynt með hana. Þú getur séð þetta á tvo vegu, þú ert ekki að fara að fá sömu sögu úr hinum boðvangnum og þannig er þetta bara."

„Það er ástríða og það er einhver lína sem þér finnst einhverjir fara yfir en öðrum finnst þeir ekki fara yfir. Þannig er það bara. Menn gera það sem þeir þurfa að gera og telja að sé liðinu sínu fyrir bestu. Ég var ekki sérstaklega sáttur með hegðun þeirra í þessum leik. Þeir þurfa alls ekki að vera sammála mér eða viðurkenna það. Ég var spurður, ég svaraði og ég tel best að segja sannleikann. Í ágúst, það verða ekkert minni læti þá," segir Óskar en liðin mætast aftur 28. ágúst. Sá leikur verður eins og sér í Bestu deildinni á því kvöldi.

Geta ekki verið að setja sig í einhvern fórnarlambsgír
Viðtal við Höskuld Gunnlaugsson, fyrirliða Breiðabliks, sem var birt á Vísi eftir leik hefur vakið mikla athygli. „Það blasti við mér að þeir missa hausinn. Ég sá ekki alveg hvað gerðist en þeir fara að hrinda okkar mönnum sem að lýsir 'unprofessional', með einhverja stæla eins og litlir hundar sem gelta hátt," sagði Höskuldur og talaði einnig um að hann hefði aldrei mætt Víkingsliðinu eins lélegu út á velli.

„Ég hef aldrei 'triggerast' jafn mikið á ævinni eins og þegar ég hlustaði á það sem hann sagði," sagði Tómas Þór Þórðarson, sem er stuðningsmaður Víkings, er talað var um viðtalið við Höskuld.

„Þið þekkið Högga og ég mat sem svo að honum fannst nóg komið. Hann ákvað að segja sína skoðun."

„Víkingarnir geta ekki verið að setja sig í einhvern fórnarlambsgír þegar kemur að þessu, þeir hafa alveg látið í sér heyra þegar kemur að þessu í gegnum tíðina. Umræðan var hörð eftir leikinn en hún litaðist af því að það voru miklar tilfinningar og mikilvægi leiksins var mikið," sagði Óskar.

Óskar talaði einnig um það í viðtalinu að sér hefði fundist illa vegið að aðstoðarþjálfara sínum, Halldóri Árnasyni, sem var ýtt af Loga Tómassyni eftir að flautað var til leiksloka. Og þá var hann á þeirri skoðun að Ívar Orri Kristjánsson, dómari leiksins, hefði getað bætt enn meiru við leikinn en þessum sex mínútum sem hann hefði bætt við. Víkingar voru verulega ósáttir við það að Ívar hefði farið fram yfir gefinn uppbótartíma en það voru komnar 40 sekúndur yfir þegar Blikar jafna. Það má færa rök fyrir því að það hafi verið rétt þar sem leikurinn stoppaði í um hálfa mínútu er Blikar skoruðu fyrr í uppbótartímanum.

Hér fyrir neðan má hlusta á útvarpsþáttinn í heild sinni þar sem Óskar ræðir meira um stórleikinn gegn Víkingum og allt sem gerðist þarna.

Sjá einnig:
Myndir og myndband af látunum á Kópavogsvelli - „Ekki margir á þessu landi sem færu í þann slag“
Útvarpsþátturinn - Óskar Hrafn og toppslagurinn þar sem allt sauð upp úr
Athugasemdir
banner
banner