Aston Villa reynir við Cunha - Barcelona getur ekki fengið Rashford - Duran til Sádi-Arabíu?
   fim 05. desember 2024 17:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Þórdís Elva: Vil hjálpa liðinu að komast á toppinn
'Stefnan heillar mikið, það eru skemmtilegir hlutir í gangi með liðið og ég er spennt að vera partur af því'
'Stefnan heillar mikið, það eru skemmtilegir hlutir í gangi með liðið og ég er spennt að vera partur af því'
Mynd: Þróttur R.
Í leik með Val þar sem hún var tímabilin 2022-23 og varð Íslandsmeistari bæði árin. Hún varð einnig bikarmeistari tímabilið 2022.
Í leik með Val þar sem hún var tímabilin 2022-23 og varð Íslandsmeistari bæði árin. Hún varð einnig bikarmeistari tímabilið 2022.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lék með Fylki tímabilin 2019-2021.
Lék með Fylki tímabilin 2019-2021.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórdís Elva Ágústsdóttir spilar á Íslandi á komandi tímabili eftir eins árs veru í Svíþjóð. Þórdís samdi við Þrótt í síðasta mánuði eftir að hafa spilað með Växjö í sænsku úrvalsdeildinni á liðnu tímabili.

Þórdís er 24 ára miðjumaður sem uppalin er hjá Haukum en hefur einnig leikið með Fylki og Val á sínum ferli. Hún ræddi við Fótbolta.net um ákvörðunina að semja við Þrótt.

„Tilfinningin er góð, ég þekki hópinn vel og mér hefur verið tekið rosalega vel. Ég æfði með Þrótti aðeins fyrir síðustu áramót og svo aftur í sumarfríinu og kunni mjög vel við mig. Stefnan heillar mikið, það eru skemmtilegir hlutir í gangi með liðið og ég er spennt að vera partur af því. Þjálfarateymið er frábært og undir þessari stjórn veit ég að ég mun bæta mig sem leikmann, svo heillar hópurinn líka svakalega! Rosalega skemmtilegur og góður hópur, miklir hæfileikar," segir Þórdís Elva.

Réttast að koma heim
Hún ákvað í lok október að halda heim frá Svíþjóð.

„Það kom auðvitað sterklega til greina að vera áfram úti og þetta var alls ekki auðveld ákvörðun. Það komu alveg nokkrir þættir að þessari ákvörðun og þeir snéru ekki allir að fótboltahliðinni en á endanum fann ég að það væri réttast fyrir mig að koma heim og halda áfram."

Stolt af eigin frammistöðu - Liðið setti stigamet
Växjö endaði í 8. sæti sænsku deildarinnar. Þórdís skoraði tvö mörk og lagði upp eitt í 24 leikjum; byrjaði tólf þeirra, kom tólf sinnum inn á og var ónotaður varamaður í tveimur leikjum. Hvernig var tímabilið í Svíþjóð?

„Það var upp og niður. Ég er virkilega ánægð og stolt af þeirri frammistöðu sem ég sýndi. Auðvitað vill maður alltaf fá fleiri tækifæri en ef ég horfi til baka á þau tækifæri sem ég fékk þá skilaði ég mínu alltaf vel og er þakklát fyrir það."

„Gengi liðsins var í sjálfu sér bara fínt þótt svo að við voru ekki sáttar og fannst við eiga að vera hærra í töflunni. Til að mynda náðum við stigameti klúbbsins í efstu deild en okkur fannst eins og við ættum meira inni sem er bara jákvætt."

„Ég var mjög fljót að aðlagast, það voru kannski þessir endalausu vídeófundir og tölfræði yfirferð sem þurfti tíma en þetta er mjög skemmtilegur kúltúr."


Þórdís var meðvituð af áhuga á sér frá öðrum íslenskum félögum en hún fór einungis í viðræður við Þrótt.

Þróttur getur verið toppliðið
Hvað langar hana að afreka hjá Þrótti?

„Mig langar að hjálpa liðinu að taka næsta skref sem mér finnst vera að stíga 100% upp í toppbaráttu. Þetta lið hefur sýnt það síðustu ár að það á vel heima þarna uppi að berjast um titla. Ég þekki það sjálf frá því að ég var í Val að leikir við Þrótt voru alltaf hættulegir og þær taka yfirleitt stig af efstu liðunum á hverju ári. Ég vil koma inn með það hugarfar að við erum ekki liðið sem er rétt á eftir toppnum, heldur getum við verið þetta topplið," segir Þórdís Elva ákveðin.
Athugasemdir
banner
banner
banner