
ÍR er búið að krækja í spænskan framherja fyrir komandi átök í 2. deild kvenna. Sú heitir Maria Marin Asensio og er 24 ára gömul.
Maria gengur í raðir ÍR frá spænska félaginu Santa Teresa sem leikur í næstefstu deild. Þar áður var hún á mála hjá Pozoalbenes í B-deildinni þar sem hún varð markahæst eitt tímabilið er félagið var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í efstu deild.
Maria er ekki komin til landsins en hún er spennt fyrir nýrri áskorun í nýju landi.
„Ég er þakklát fyrir þetta tækifæri. Ég er mjög spennt og hlakka til að leggja mig 100% fram til að hjálpa ÍR að ná fram markmiðum sínum. Vamos ÍR!" segir Maria.
ÍR endaði í 4. sæti 2. deildar í fyrra, með 32 stig úr 16 umferðum, aðeins tveimur stigum eftir Gróttu sem komst upp í Lengjudeildina.
Ekki er greint frá hversu langan samning Maria skrifaði undir.