Arsene Wenger, fyrrum þjálfari Arsenal, starfar í dag sem yfirmaður þróunarmála hjá FIFA.
Hann starfar í þágu fótboltans og vill sífellt reyna að bæta leikinn sem hann elskar. Hann hefur því lagt til stóra breytingu á rangstöðureglunni, sem að hans mati er leiðrétting á reglunni.
„Eftir HM 1990 á Ítalíu var ákveðið að það er ekki rangstaða ef sóknarmaður er í línu við aftasta varnarmann, þannig fengu sóknarmenn að njóta vafans hjá aðstoðardómurum. Þetta breyttist þegar VAR var kynnt til sögunnar og vafinn fjarlægður," sagði Wenger meðal annars í beinni útsendingu á beIN Sports, sem sýnir undanúrslitaleik Meistaradeildarinnar í kvöld.
„Þess vegna hef ég lagt til reglubreytingu: að sóknarmaður sé ekki rangstæður ef hann er í línu við aftasta varnarmann. Við erum að prufukeyra þetta núna og mun IFAB taka ákvörðun á næsta ári."
Wenger tók meðal annars fram að á yfirstandandi leiktíð hafa 37 mörk ekki verið dæmd í ensku úrvalsdeildinni vegna naumrar rangstöðu eftir nánari athugun í VAR-herberginu. Það er há tala sem hefði getað breytt ýmsu í gangi mála á leiktíðinni.
Athugasemdir