Man Utd og Chelsea leiða baráttuna um 63 milljóna punda Gyökeres - United hefur áhuga á Gortezka og Sane - Samningi Neymar gæti verið rift
banner
   sun 06. október 2024 20:49
Ívan Guðjón Baldursson
Ítalía: De Gea varði tvær vítaspyrnur og Albert skoraði sigurmarkið gegn Milan
Mynd: EPA
Albert er kominn með þrjú mörk í þremur fyrstu deildarleikjunum með Fiorentina.
Albert er kominn með þrjú mörk í þremur fyrstu deildarleikjunum með Fiorentina.
Mynd: EPA
Fiorentina 2 - 1 Milan
0-0 Moise Kean ('22 , Misnotað víti)
1-0 Yacine Adli ('35 )
1-0 Theo Hernandez ('45 , Misnotað víti)
1-0 Tammy Abraham ('56 , Misnotað víti)
1-1 Christian Pulisic ('60 )
2-1 Albert Gudmundsson ('73 )

Lokaleikur helgarinnar í ítölsku deildinni fór fram í kvöld og var hreint út sagt mögnuð skemmtun, þar sem Luca Pairetto dómari var í aðalhlutverki.

Fiorentina fékk fyrstu vítaspyrnu leiksins á 22. mínútu en Moise Kean klúðraði henni. Yacine Adli, sem er á láni frá Milan, tók svo forystuna fyrir Fiorentina á 35. mínútu.

Milan fékk dæmda vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks en David de Gea varði mjög vel frá Theo Hernández til að halda sínum mönnum í forystunni.

Í síðari hálfleik fékk Milan aðra vítaspyrnu dæmda og í þetta sinn reyndi Tammy Abraham fyrir sér, en aftur varði De Gea til að halda forystunni.

Hún entist þó ekki lengi því Christian Pulisic skoraði í fjórða deildarleiknum í röð með glæsilegri afgreiðslu eftir flotta fyrirgjöf frá Hernández og staðan orðin jöfn.

Fiorentina vildi fá vítaspyrnu skömmu síðar en fékk ekki en heimamenn létu deigan ekki síga og skoraði Albert Guðmundsson, sem var á sínum stað í byrjunarliði Fiorentina, sigurmarkið á 73. mínútu eftir langt útspark frá De Gea.

Kean gerði vel að koma boltanum á Albert sem skoraði með frábæru og föstu skoti sem Mike Maignan átti ekki mikla möguleika í.

Milan reyndi að sækja jöfnunarmark á lokakaflanum en tókst ekki að skapa mikla hættu og urðu lokatölur 2-1.

Flottur sigur hjá Fiorentina sem geta þakkað spænska markverðinum De Gea fyrir að hafa varið tvær vítaspyrnur.

Albert og félagar eru komnir með 10 stig eftir 7 umferðir á nýju tímabili, einu stigi minna heldur en AC Milan.
Athugasemdir
banner
banner