Jonathan Barnett, umboðsmaður Gareth Bale, er þreyttur á neikvæðri umræðu um samband leikmannsins við Real Madrid og lét allt flakka í samtali við talkSPORT.
Barnett gagnrýnir knattspyrnusérfræðinga og fjölmiðla og segir þá hafa fjallað um málið af mikilli vanþekkingu. Hann sakar fjölmiðla um lygar og rógburð.
„Hvorki Real Madrid né Zidane hafa sagt slæmt orð um Gareth Bale. Þetta eru bara fjölmiðlar að skálda sögur. Svo koma sérfræðingar í sjónvarpinu og segja 'stærsta vandamálið við Gareth Bale er að hann talar ekki spænsku og það er til skammar'," sagði Barnett.
„Þetta er fólk sem hefur aldrei hitt hann eða kynnt sér málið til fulls svo ég skil ekki hvaðan það fær þessa skoðun. Gareth Bale talar víst spænsku, ég vil ekki heyra í þessum svokölluðu 'sérfræðingum' sem gera sig að fíflum með því að bulla í sjónvarpinu."
Það var Marcelo, liðsfélagi Bale hjá Real Madrid, sem sagði Walesverjann aldrei tala spænsku á æfingum í viðtali fyrir einu og hálfu ári síðan.
Spænskukennari Bale sagði í viðtali skömmu síðar að leikmaðurinn kynni góða spænsku en væri feiminn við að tala tungumálið af ótta við að gera mistök.
„Hvernig geta þessir sérfræðingar talað um Gareth Bale þegar þeir hafa A) aldrei hitt hann og B) myndu ekki einu sinni kannast við hann utan vallar. Þetta er algjör brandari!"
Athugasemdir