
Írönsk kona, sem er kölluð Sahar í fjölmiðlum, var gripin er hún reyndi að smygla sér inn á fótboltaleik í heimalandinu. Hún var í dulargervi karlmanns en það komst upp um hana. Kvenmenn í Íran mega ekki horfa á 'hálfnakta' karlmenn keppa í fótbolta eða öðrum slíkum íþróttum.
Hún var handtekin, kærð og skylduð til að mæta fyrir dóm. Lögfræðingur hennar greindi henni frá því að hún fengi líklegast sex mánaða fangelsisdóm. Sahar labbaði þá út og kveikti í sér fyrir utan dómshúsið. Hún hlaut alvarlega áverka og var flutt á spítala.
Sahar hefur áður komist í kast við lögin í Íran fyrir að klæðast ekki hefðbundnum klæðnaði og fyrir að streitast gegn lögreglu.
Jafnrétti kynjanna er ekki mikið á þessum slóðum en raddir íranskra baráttukvenna, sem og annarra kvenna í Mið-Austurlöndunum, hafa farið hækkandi á undanförnum árum.
Athugasemdir