mið 08. febrúar 2023 23:51
Ívan Guðjón Baldursson
Skubala: Gnonto er stórkostlegur leikmaður
Mynd: Getty Images

Michael Skubala er einn af þremur þjálfurum sem hafa tekið við bráðabirgðastjórn á Leeds United eftir brottrekstur Jesse Marsch.


Skubala gaf kost á sér í viðtal eftir 2-2 jafntefli á útivelli gegn Manchester United í fyrsta leik eftir brottreksturinn. Hann veit ekki hvort hann verði áfram við stjórnvölinn þegar liðin mætast að nýju á sunnudaginn.

„Ég er virkilega stoltur af strákunum og svekktur að við höfum ekki unnið þennan leik. Mér fannst við hafa gert nóg til að vinna. Við mættum gríðarlega erfiðum andstæðingum og þetta verður aftur erfitt næsta sunnudag," sagði Skubala, sem var svo spurður hvort nýr stjóri yrði ráðinn til Leeds fyrir næsta leik.

„Ég hef ekki haft tíma til að spá í neinu nema þessari viðureign hér. Ég þjálfa leikmennina en það eru stjórnendurnir sem sjá um allt annað. Þeir sjá um að ráða næsta mann. Ég veit ekki hvenær það gerist."

Skubala nýtti tækifærið til að hrósa framherjanum unga Wilfried Gnonto í hástert enda skoraði hann fyrsta mark leiksins.

„Hann er stórkostlegur leikmaður. Þetta er ótrúlega hæfileikaríkur strákur og frábær manneskja. Gríðarlega mikilvægur leikmaður fyrir okkur."


Athugasemdir
banner
banner