Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 09. febrúar 2020 21:44
Brynjar Ingi Erluson
Ítalía: Ótrúlegur endurkomusigur í Mílanó
Stefan De Vrij fagnar marki sínu innilega á Giueppe Meazza-leikvanginum
Stefan De Vrij fagnar marki sínu innilega á Giueppe Meazza-leikvanginum
Mynd: Getty Images
Inter 4 - 2 Milan
0-1 Ante Rebic ('40 )
0-2 Zlatan Ibrahimovic ('45 )
1-2 Marcelo Brozovic ('51 )
2-2 Matias Vecino ('53 )
3-2 Stefan de Vrij ('70 )
4-2 Romelu Lukaku ('90 )

Inter fagnaði ótrúlegum 4-2 sigri á AC Milan í nágrannaslagnum á Giuseppe Meazza leikvanginum í Mílanó í kvöld en Inter var tveimur mörkum undir í hálfleik.

Hakan Calhanoglu átti fyrsta hættulega tækifærið fyrir Milan er hann þrumaði í stöng rétt fyrir utan teiginn. Stuttu síðar átti úrúgævski miðvörðurinn Diego Godin skalla framhjá eftir hornspyrnu.

Það var hins vegar króatíski sóknarmaðurinn Ante Rebic sem kom Milan yfir með marki af stuttu færi á 40. mínútu. Það kom bolti fyrir markið sem Zlatan Ibrahimovic skallaði í áttina til Rebic og náði króatíski landsliðsmaðurinn að skófla honum í netið.

Fimm mínútum síðar bætti Zlatan við öðru marki með skalla eftir hornspyrnu og Milan með ágætis veganesti í síðari hálfleikinn.

Antonio Conte, þjálfari Inter, átti líklega frábæra ræðu í hálfleik því Inter kom af krafti inn í síðari hálfleikinn og var það Marcelo Brozovic sem minnkaði muninn með góðu vinstri fótar skoti áður en Matias Vecino jafnaði metin tveimur mínútum síðar eftir sendingu frá Alexis Sanchez.

Á 70. mínútu skoraði Inter svo þriðja markið. Antonio Candreva átti hornspyrnu sem fór beint á hausinn á Stefan De Vrij og í netið.

Danski sóknartengiliðurinn Christian Eriksen kom inná sem varamaður og var nálægt því að bæta við fjórða markinu er hann tók aukaspyrnu sem hafnaði í samskeytunum. Zlatan gat jafnað metin á 90. mínútu er Lucas Paqueta átti sendingu á Zlatan sem skallaði í stöng.

Romelu Lukaku gerði út um leikinn í uppbótartíma með skallamarki eftir fyrirgjöf frá Victor Moses.

Lokatölur 4-2 fyrir Inter sem er með jafnmörg stig og Juventus eða 54 talsins á meðan Milan er í 8. sæti með 32 stig.

Inter (3-5-2): Padelli; Godín, De Vrij, Škriniar; Candreva, Barella, Brozović, Vecino, Young; Alexis, Lukaku.

Milan (4-4-1-1): Donnarumma; Conti, Kjaer, Romagnoli, Theo; Castillejo, Kessie, Bennacer, Rebic; Calhanoglu; Ibrahimovic
Athugasemdir
banner
banner
banner