Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   fös 09. júlí 2021 11:40
Elvar Geir Magnússon
Eyjólfur Héðins: Það er smá óbragð í munni
Eyjólfur í Evrópubúningi Stjörnunnar í gær.
Eyjólfur í Evrópubúningi Stjörnunnar í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Silfurskeiðin var í stuði.
Silfurskeiðin var í stuði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eyjólfur var í afleysingum sem miðvörður en þetta er í fyrsta sinn á ferlinum sem hann er að spila þessa stöðu.
Eyjólfur var í afleysingum sem miðvörður en þetta er í fyrsta sinn á ferlinum sem hann er að spila þessa stöðu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eyjólfur Héðinsson telur helmingslíkur á því að Stjarnan nái að slá út Bohemian frá Írlandi í Sambandsdeild UEFA en liðin gerðu 1-1 jafntefli Garðabænum. Seinni leikurinn verður svo í Dublin á fimmtudaginn í næstu viku.

UEFA hefur lagt niður regluna um að mörk á útivöllum telji meira.

„Þessi úrslit í gær voru allt í lagi, útivallarmarkið þeirra skiptir minna máli eftir að reglan var felld úr gildi. Þetta verður 50/50 leikur úti. Það er samt smá svekkjandi að þetta endaði í jafntefli því við spiluðum ágætis fyrri hálfleik fannst mér," segir Eyjólfur.

Emil Atlason skoraði í fyrri hálfleik en Bohemian náði að jafna eftir hlé og 1-1 enduðu leikar.

„Fyrir utan stangarskot í byrjun sköpuðu þeir gjörsamlega ekki neitt og skora mark eftir að skotið var í okkar mann og boltinn lak í hornið. Það er svekkjandi. Þetta voru allt í lagi úrslit en við hefðum getað unnið leikinn og farið með enn betri stöðu út, það er smá óbragð í munni að hafa ekki unnið leikinn."

Stjarnan komst nokkrum sinnum í lofandi sóknir sem liðið hefði getað farið betur með og bætt við marki.

„Ég er sammála því. Við höfum spilað betur og maður vill sjá menn stíga enn meira upp þegar það eru Evrópuleikir. Þetta fór svona. Sviðskrekkurinn er farinn hjá nokkrum sem voru að spila sinn fyrsta Evrópuleik í gær. Það er mikilvægt í svona leikjum að vera með reynslu, þú ert að spila við öðruvísi leikmenn. Menn mæta reynslunni ríkari til Írlands. Vonandi spilum við betur þar, við eigum að geta það," segir Eyjólfur.

Við ætlum okkur að komast áfram
Eyjólfur segir að það muni klárlega gefa liðinu mikið á erfiðu tímabili ef það nær að klára einvígið með sigri. Gengi Garðabæjarliðsins hefur verið langt undir væntingum, það er í sjöunda sæti Pepsi Max-deildarinnar og fallið úr bikarnum.

„Þetta hefur verið hvert áfallið á fætur öðru á þessu tímabili og verið mjög erfitt. Það myndi gefa okkur mikið að komast áfram í næstu umferð, við þurfum á því að halda. Við förum út og þar er bara eitt markmið: Við ætlum okkur að komast áfram. 1-1 eru alls ekki hræðileg úrslit, við mætum fullir sjálfstrausts."

Hélt að það væri ekki svona mikill munur
Eyjólfur er miðjumaður en lék í miðverðinum í gær. Hann hefur verið að spila þá stöðu aðeins í afleysingum að undanförnu, vegna meiðsla í liðinu, en þetta er í fyrsta sinn á ferlinum sem hann leikur í hjarta varnarinnar. Hann býr yfir miklum leikskilningi og hefur leyst stöðuna vel.

„Það er mikill munur á þessu, ég hélt að þetta væri ekki svona mikill munur. Maður er miklu minna í 'actioninu' finnst mér, maður er alltaf í hringiðunni á miðjunni en í hafsentnum koma tímar þar sem er mikið að gera en svo koma tímar þar sem er miklu minna að gera."

„Þetta er allt öðruvísi en mjög skemmtilegt samt sem áður. Maður sér völlinn frá öðru sjónarhorni þegar maður er þarna aftast og getur stjórnað mönnum kringum sig meira. Ég held að þetta sé samt ekki framtíðin... ekki það að ég eigi mikla framtíð í boltanum, þetta er að vera búið! Það er allavega gaman að prófa þetta," segir Eyjólfur sem er 36 ára.

„Við erum í miðvarðakrísu og það er gott að geta hjálpað liðinu. Það eru tveir miðverðir meiddir og strákur í 2. flokki sem er einn af okkar upprennandi miðvörðum er líka meiddur. Það þurfti bara að leysa þetta og við erum bara að fylla í eyðurnar. Það er fínn styrkleiki að geta hent mönnum hingað og þangað en samt spilað ágætlega."

„Svo fara menn að detta inn. Það styttist í Danna og Bjössa svo ég býst nú ekki við því að spila mikið fleiri leiki þarna," segir Eyjólfur en þeir Daníel Laxdal og Björn Berg Bryde eru meiddir.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner